Það hefur nú varla farið framhjá
neinum sem er með FH-hjarta að okkar ástkæra markverja, Magnús
Sigmundsson, mun verja markið í vetur hjá FH í Úrvalsdeild karla. FH.is
tók Magga tali og við byrjuðum á að spyrja hann hvernig tilfinningin
væri með að vera kominn aftur heim í Krikann. „Hún er mjög góð og ég hlakka til að fá að spila með þessum ungu strákum, “ sagði Maggi glaður í bragði.

Um ástæðu þess að Maggi ákvað að taka slaginn með FH í vetur sagði hann: „Planið
var alltaf að enda minn feril í FH en svo atvikuðust hlutir þannig
fyrir 2 árum að ég fór í Hauka en fæ nú tækifæri til að klára ferilinn
í FH. “

En hvað kemur Maggi til með að leggja af mörkum til liðsins í
baráttunni? „Gríðarleg reynsla,“ segir Maggi og hlær dátt, „en í
alvörunni að þá held ég að ég komi til með að gefa liðinu smá jafnvægi
auk þess að hækka meðalaldur liðsins.“

Um hópinn og hvernig honum líst á hann sagði Maggi: „Það er erfitt
að segja til um standið á liðinu þar sem við höfum lítið spilað en ég
held að þetta verði fín blanda af ungum og ekki svo ungum leikmönnum.
Með 1-2 sterkum nýjum leikmönnum værum við komnir með hörkulið.
Æfingarnar hafa gengið mjög vel nú á undirbúningstímanum þrátt fyrir
fámenni sökum þátttöku nokkurra leikmanna í verkefni U-18 ára
landsliðsins.“

En hvað með markmið fyrir veturinn, er búið að setja þau á blað?
„Nei, ekki enn, hvorki hjá þjálfurum né leikmönnum en ég held að
markmið númer 1, 2 og 3 sé að halda sér í deildinni. Ég held að með 2
sterkum leikmönnum í viðbót gætum við stefnt hærra. Það þarf ekki mikið
til að fara í efri hluta deildarinnar.“

FH.is bað Magga um að setja sig í spádómsstellingar fyrir deildina í
vetur, hverjir verða í toppbaráttunni og hverjir munu skrapa botninn?

„Ég held að Valur, Haukar og jafnvel Fram verði viðloðandi toppinn
og svo eru lið eins og Stjarnan og HK dálítið spurningamerki. Eftir
standa því við í FH, Akureyri og Víkingur. Við eigum að vera sterkari
en Víkingur og getum vel unnið Akureyri þannig að raunhæft verðum við í
baráttunni um 6. sætið. Það er algjört lykilatriði hjá okkur að taka
leikina á móti þessum lakari liðum og reyna svo að taka stig á móti
hinum. Evrópukeppnin tekur alltaf sinn toll hjá liðum eins og sást
berlega hjá Val í fyrra en á góðum degi ættum við að geta strítt hinum
liðunum,“
sagði spámaðurinn Maggi Sigmunds.

Eitthvað að lokum sem þú vilt segja við FH-inga nær og fjær? „Bara
að styðja við bakið á liðinu með ráðum og dáðum og mæta á völlinn,
ÁFRAM FH!“

FH.is þakkar Magga kærlega fyrir spjallið og óskar honum alls hins besta í rammanum í vetur,