Skylmingadeild FH var sigursæl á Íslandsmeistaramótinu í skylmingum sem fram fór Skylmingamiðstöðinni Baldurshaga um helgina. Alls vann skylmingadeildin til tuttugu og eins verðlauna, þar af sex gullverðlauna.

Ragnar Ingi Sigurðsson, FH, sigraði í opnum flokki karla eftir harða baráttu við Sævar Baldur Lúðvíksson, úr Skylmingafélagi Reykjavíkur. Leiddu þeir bardagann til skiptis og var Sævar yfir 8:6 í hléi. Fóru þó leikar svo að Ragnar sigraði, 15:14. Lið FH sigraði sömuleiðis í liðakeppni mótsins. Mætti FH liði SFR og sigraði með 45 stigum gegn 42, eftir harða og jafna baráttu. Í liði FH voru þeir Ragnar Ingi Sigurðsson, Guðjón Ingi Gestsson, Ólafur Bjarnason og Gunnar Egill Ágústsson, en hann er einungis 16 ára. Gunnar lenti svo í öðru sæti í unglingaflokki karla 17 ára og yngri. Sigur í þeim flokki tilheyrði reyndar einnig FH. Var það Hilmar Örn Jónsson sem þar vann gullið en hann verður fjórtán ára í desember. Hilmar gerði sér lítið fyrir og sigraði líka í unglinga karla 15 ára og yngri, af miklu öryggi. Þá sigraði Sigtryggur Hrafnkelsson, úr FH, í byrjendaflokki karla og Ólafur Bjarnason, FH, í flokki 40 ára og eldri.

 

Liðsmenn FH létu að sér kveða í öllum flokkum. Kristján Hrafn Hrafnkelsson náði bronsverðlaunum í ungmenna flokki karla 20 ára og yngri og Sigrún Guðjónsdóttir náði sama sæti í flokki kvenna. Ragnheiður Guðjónsdóttir náði silfri í kvennaflokki unglinga 17 ára og yngri, Aldís Edda Ingvarsdóttir fékk brons og deildi því með Diljá Hvannberg. Viktor Ingi Guðmundsson fékk brons í unglingaflokki karla 15 ára og yngri, Þórdís Viðarsdóttir fékk silfur í kvennaflokkinum, Aldís Edda náði öðru bronsi og sömuleiðis Diljá.

FH átti öll efstu sætin í byrjendaflokki karla. Sigtryggur Hrafnkelsson náði fyrsta sæti eins og fyrr er nefnt en í öðru sæti var Stefán Páll Jónsson og í því þriðja Caio Cézar Melo Ferri en hann er skiptinemi frá Brasilíu sem æfir með deildinni í vetur.

 

Þegar litið er yfir heildarárangur FH í keppninni er ljóst að skylmingadeildin er afar öflug og athygli vekur hvað unglingastarfið er að skila miklum árangri.