Undanfarnar tvær helgar hafa strákarnir í 5. flokki tekið þátt í Deildarbikarkeppninni í handbolta og staðið sig aldeilis frábærlega.  FH sendi alls 5 lið til keppni, tvö á yngra ári og þrjú á eldra.

 

Yngra liðið lék í Hafnarfirði um þar síðustu helgi.  FH-1 gerði sér lítið fyrir og sigraði í öllum sínum leikjum og varð Deildarbikarmeistari.  Þeir höfðu nokkra yfirburði í mótinu og unnu m.a. Stjörnuna í úrslitaleik, 18-9. 

FH-2 áttu einnig aldeilis frábært mót því mótið var þannig uppsett að öllum liðum var blandað saman, þ.e. ekki var skipt í riðla eftir getu.  Þeir léku því við sum af betri liðum mótsins en létu það ekki á sig fá.  Þeir áttu frábæra leiki og gerðu m.a. jafntefli við Fram sem lék til úrslita við FH-1 og aðeins vantaði herslumun á að þeir kæmust í milliriðla. 

Eldra árið lék nú um nýliðna helgi og er skemst frá því að segja að þeir stóðu sig frábærlega.  Þau komust öll í milliriðla og FH-1 sigraði mótið eftir að hafa haft nokkra yfirburði í riðlakeppninni.  Sigruðu svo Fram og gerðu jafntefli við Selfoss í úrslitum sem dugði þeim til sigurs.  FH-2 og FH-3 áttu einnig frábært mót, oft á tíðum á móti A-liðum andstæðinganna.  FH-3 vann til dæmis A-lið Vals og FH-2 vann A-lið Hauka.  Í þessum liðum eru meira að segja nokkrir strákar af yngra ári sem þó var ekki hægt að sjá á leik þeirra.

 

Aldeilis frábær árangur hjá strákunum og ljóst að FH þarf ekki að kvíða framtíðinni.  Þarna eru á ferðinni stórir árgangar af afar efnilegum handboltamönnum sem örugglega eiga eftir að sjást í meistaraflokknum eftir nokkur ár.  Þessir strákar hafa alla tíð verið einstaklega duglegir við æfingar, hafa mikinn metnað og tilbúnir að leggja mikið á sig.  Enda lætur árangurinn ekki á sér standa.

Það verður virkilega gaman að fylgjast með þessum strákum á næstu árum og við hjá fh.is hvetjum fólk til að kíkja á þessa stráka í næstu keppnum.

Það má svo gjarnan geta þess hér að FH mun heiðra þessa frábæru fulltrúa sína á heimaleik meistaraflokks karla við Akureyri á morgun, fimmtudag.

Glæsilegt strákar og til hamingju með þennan frábæra árangur.