Í tilefni af leik Hauka og FH sem fer fram annað kvöld, fimmtudag, vilja fréttaritarar fh.is rifja aðeins upp söguna og fjalla um fyrsta leik þessara liða.

Það vill svo skemmtilega til að fyrsti opinberi handknattleiksleikur FH var við erkifjendurna úr Haukum.  Þetta var árið 1940 í gamla leikfimishúsinu við Lækjarskóla og Hallsteinn heitinn Hinriksson var auðvitað þjálfari.  Til gamans rifjum við hér upp frásögn af þessum tímamóta leik eins og hún hefur birst víða, m.a. í bókinni “Saga FH í 75 ár”.

 

Haukar æfðu handbolta mjög mikið á þessum árum og voru sterkir.  Þeir höfðu lengi óskað eftir því að FH-ingar kepptu við þá einn leik hér í leikfimishúsinu.  Þeir ítrekuðu þetta margsinnis við Hallstein, og loks lét hann til leiðast, með þeim skilyrðum þó, að þar yrði enginn áhorfandi.  Síðan var leikurinn ákveðinn á sunnudagi, menn skyldu koma þarna upp í leikfimishús um tvöleytið og læðast inn, svo bæri sem minnst á.

 

Einhvern veginn hafði þetta samt kvisast út, og voru þarna komnir nokkrir menn til að fá að horfa á þennan sögulega leik, sem fram átti að fara.  Fór svo að þrátt fyrir varnaðarorð Hallsteins, að þarna komust inn nokkrir áhorfendur frá báðum félögum, sem keppendum tókst að smygla inn með sér.  Síðan var byrjað að leika, sett voru mörk á báða bóga og mátti ekki milli sjá.  Áhorfendur sátu uppi í rimlum og hvöttu keppendur óspart, og varð stax mikill hiti í leiknum.

 

Hallsteinn dæmdi leikinn, fannst honum brátt fullhart leikið og kvaddi liðin bæði út af leikvangi og vildi stilla til friðar með þeim.  Svo var tekið til á nýjan leik og reynt með einhverju móti að fá leiknum lokið.  Það reyndist þó erfitt, því að tvívegis eftir þetta var farið upp í búningsherbergi og saminn friður.  FH mun lengst af hafa haft eitt mark yfir, og er sagt, að leikar stæðu 21:20 fyrir FH, er menn komu síðast á tölu.

 

Svo fór að lokum, að tveir leikmanna lentu í “faðmlögum.”  Áhorfendur þoldu ekki mátið lengur, hentust niður úr rimlum og vildu fá þetta útkljáð, eða ætluðu nú reyndar að ganga í milli.  Leiknum lauk sem sagt með því, að einn FH-ingur, sem þarna blandaði sér í leikinn, fékk vel útilátið kjaftshögg, þannig að hann fór úr kjálkaliðnum og var þar með flautað af.