FH fór illa af stað og á upphafsmínútum var staðan orðin 0-2.  Áður en flautað var til leikhlés höfðu gestirnir svo bætt við tveimur mörkum.  Í síðari hálfleik náði FH betri tökum á leiknum og gerðust aðgangsharðari á vallarhelmingi Fylkis.  Undir lok leiksins var brotið á Sigrúnu Ellu Einarsdóttur við vítateig andstæðinganna og Halla Marínósdóttir skoraði eina mark FH úr spyrnunni.  Ágætur dómari leiksins flautaði leikinn af í beinu framhaldi.

Þrátt fyrir styrkleika mun liðanna gerðu FH-stelpurnar Fylkir allt of auðvelt fyrir í leiknum.  Okkar stelpur voru of ragar að taka frumkvæðið og til að halda  boltanum.  Spilið var lítið og handahófskennt og FH náði í raun aldrei að ógna við mark Fylkis.

Eins og svo oft hefur komið fram er lið FH ungt að árum og leikur sem þessi leggst inn í hinn margumrædda reynslubanka.  FH stefnir að því að komast í efstu deild og í gær sáu stelpurnar hvað til þarf til að verða gjaldgengur meðal þeirra bestu.  Það verða þær að taka með sér inn í framhaldið.

Birna Berg átti góðan leik í marki FH og þrátt fyrir að þurfa sækja knöttinn ítrekað í markið þá er ekki við hana að sakast.  Berglind „Bella“ Arnardóttir og Sara Atla fóru fyrir vörn FH og höfðu í mörg horn að líta þar sem leikurinn fór að mestum hluta fram á vallarhelmingi FH.   Þær komust þokkalega frá leiknum auk þess sem Sigmundína Sara, miðjumaður FH stóð sig einnig ágætlega en hún virkaði oft hjálparvana á stóru svæði.  Aðrir leikmenn létu lítið á sér bera og sem fyrr segir, hefðu mátt sína meira frumkvæði

Næsti leikur liðsins er á þriðjudaginn næstkomandi gegn ÍBV kl. 20:00 í Krikanum.  Stelpurnar verða nú að vígbúast og mæta ákveðnar til leiks en ÍBV hafa verið að ná góðum úrslitum að undaförnu.

Við skorum á sem flesta að láta sjá sig og styðja liðið.