Á morgun, þriðjudag, heldur meistaraflokkur karla til Svíþjóðar þar sem
þeim hefur verið boðið að taka þátt í 4-liða æfingamóti.  Mótið fer
fram í Eskilstuna sem er heimabær GUIF sem Kristján Andrésson,
fyrrverandi landsliðsmaður, þjálfar. 

Mótið er nokkuð sterkt en ásamt
GUIF, sem sitja sem stendur í 6.-7. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar,
taka þátt norsku bikarmeistararnir í Elverum, sem eru í 2.-3. sæti
norsku deildarinnar og LIF Lindesberg, sem er í 8.-9. sæti sænsku
úrvalsdeildarinnar.
Þetta verkefni er kærkomið nú í landsliðspásunni og gefur strákunum
tækifæri til að spila alvöruleiki í stað æfingaleikja hér heima auk
þess að geta stillt saman strengina í ró og næði fyrir lokaátökin að
loknu EM í Austurríki.

Liðið fer auðvitað án Ólafs Guðmundssonar, sem er jú í
landsliðshópi Íslands en einnig kemst Hermann Ragnar Björnsson ekki með
þar sem hann liggur á sjúkrahúsi eftir að hafa fengið botnlangakast og
bíður uppskurðar og því ljóst að hann verður fjarri góðu gamni næstu
vikurnar.  Það er mjög bagalegt þar sem hann var að koma sterkur upp
eftir að hafa jafnað sig af fingurbroti sem hélt honum frá keppni í 2
mánuði fyrir áramót.

Hægt verður að fylgjast með mótinu á vefslóðinni   www.guif.nu