Í kvöld fór fram 17. umferð N1-deildar karla en þá mættu Stjörnumenn úr Garðabæ og léku við heimamenn í FH. Þar mátti búast við spennandi viðureign, enda voru bæði lið í harðri baráttu; þó á sitthvorum enda töflunnar, FH-ingar í baráttu um sæti í úrslitakeppninni en Stjarnan á botninum.

 
FH og Stjarnan áttust við í Krikanum í kvöld.

Undirritaður telur að það taki því ekki að lýsa leiknum í smáatriðum. Þótt hann sé fæddur og uppalinn á Íslandi og ágætlega talandi á Íslenskri tungu hefur honum ekki tekist að finna fullnægjandi lýsingarorð yfir frammistöðu FH-liðsins í kvöld. Liðið var arfaslakt frá upphafi til enda í vörn og sókn á meðan Stjörnumenn börðust fyrir sínu, enda þurftu þeir virkilega á sigrinum að halda. FH-ingar virtust ekki gera sér grein fyrir því að þeir væru að spila kappleik, leikur liðsins var á svo lágu plani að annað eins hefur sjaldan sést á gólfum Kaplakrika. Ekki bætti úr skák að dómarar leiksins voru slakir í kvöld, sýndu óþarflega mikið af rauðum spjöldum ( 3 talsins) og ráku menn út af í tíma og ótíma. Þar á meðal fékk stórskytta okkar FH-inga, Ólafur Guðmundsson, að líta rauða spjaldið annan leikinn í röð. Þó er ekki hægt að segja að á annað liðið hafi hallað þegar kemur að dómgæslunni.  Leikurinn endaði 27-28, en staðan var 11-15 í hálfleik.


Danni átti flotta innkomu – Varði 16 skot

Þó skal minnast á nokkra ljósa punkta. Daníel Andrésson átti flotta innkomu í mark FH-inga, varði 16 skot og það ber að hrósa honum fyrir það. Svo skal að sjálfsögðu minnast á ágætis frammistöðu þeirra Bjarna Fritzsonar og Ólafs Gústafssonar, Bjarni skoraði 7 mörk en Ólafur 8 mörk.

En það er þó ekki nóg. Haldi FH-ingar að það sé nóg að fara í svona leiki með hangandi hendi er það stór og mikill misskilningur. Þótt staðan í deildinni gefi til kynna getumun á liðunum tveimur þýðir það þó ekki að svo sé endilega raunin, enda eru þetta í grunninn bara tvö handboltalið.  Allir leikir byrja í stöðunni 0-0, sama hvar liðin standa í deildinni fyrir leik. Að sama skapi er leiknum ekki lokið fyrr en lokaflautið gellur. Þetta þurfa strákarnir okkar að hafa í huga, en að undanförnu er eins og þeir hafi minni áhuga á leikjum sem að ekki eru gegn Haukum, Val eða Akureyri. Eitt af einkennum sterkra liða er það að þau gera alltaf sitt besta, sama á móti hvaða liði er leikið.

Næsti leikur FH-inga er gegn Gróttu fimmtudaginn næsta í Krikanum. Gróttumenn unnu flottan sigur á Akureyri í gær og mæta því væntanlega fullir sjálfstrausts í leikinn. Það er deginum ljósara að FH-ingar þurfa að hysja upp um sig buxurnar fyrir þann leik ef ekki á illa að fara. Liðsmenn FH eiga mikið inni miðað við leik dagsins og ætla ég rétt að vona að þeir mæti brjálaðir til leiks á fimmtudaginn, enda eiga þeir ennþá góða möguleika á sæti í úrslitakeppninni eftir önnur úrslit í kvöld. Meira um Gróttuleikinn síðar.

Áfram FH.