Fyrir leik FH og KR á mánudaginn var, þar sem FH-ingar báru 3-2 sigur úr býtum, var Aron Pálmarsson sæmdur Gullmerki FH fyrir afrek sín í vetur.

Aron, sem var keyptur til Þýska meistaraliðsins Kiel fyrir tímabilið, átti frábæran vetur á öllum vígstöðvum og kom mörgum á óvart með frammistöðu sinni enda ungur að árum. Hann fékk mikinn spiltíma með aðalliði Kiel sem varð Þýskalands-og Evrópumeistari, sló í gegn með frammistöðum sínum hjá Íslenska landsliðinu á EM í vetur, en Íslenska liðið vann til bronsverðlauna eins og allir vita, og var að lokum valinn besti nýliðinn í Þýsku Bundesligunni – sló þar m.a.s. Svíanum Oscar Carlén við, en Svíar hafa lengi hampað honum sem efnilegasta leikmanni Skandinavíu. Nú hefur annað komið í ljós.

Við hjá FH.is viljum óska Aroni innilega til hamingju með áfangann. Hér að neðan eru tvær myndir frá Jóa Long, en þær tók hann á leiknum á mánudaginn er Aron var sæmdur Gullmerkinu.