Í kvöld hófst keppni í N1-deild karla á nýjan leik eftir sumarfrí er Afturelding úr Mosfellsbæ heimsótti FH-inga í Kaplakrika. Þar mátti búast við hörkuleik, enda tvö flott lið að mætast sem bæði vildu hefja mótið af krafti. Leikurinn stóð vel undir væntingum og liðin tvö, sem bæði voru rækilega hvött áfram af fjölmennum stuðningsmannahópum sinna liða, buðu upp á spennandi leik…allavega framan af. En nú nánar um leikinn.

Fyrri hálfleikur
Liðin mættu vel stemmd til leiks, hvorugt tilbúið að gera tommu eftir. Fyrstu mínútur leiksins voru spennuþrungnar og var jafnt á öllum tölum hjá liðunum. Lítið var um varnir og var hraðinn í leiknum mikill. Nýliðarnir úr Aftureldingu virkuðu þó örlítið grimmari í byrjun, greinilega ákveðnir í því að sækja a.m.k. stig í Krikann, en FH-ingar voru ekki mikið síðri eins og skorið eftir 20 mínútur segir – staðan 9-8 fyrir Aftureldingu. Gott, en gæti verið betra.

Áfram héldu leikar og enn virtust FH-ingar ekki ætla að ná forustunni í leiknum, þrátt fyrir góða spilamennsku. Bjarni Aron Þórðarson, uppalinn FH-ingur í herbúðum Aftureldingar, fór mikinn og reyndist FH-ingum erfiður – en hann var markahæstur Mosfellinga í hálfleik ásamt öðrum fyrrverandi FH-ingi, Arnari Theodórssyni, sem virkaði frískur og í góðu formi. FH-ingar tóku leikhlé í stöðunni 12-11 á 23. mínútu, enda vantaði aðeins herslumuninn upp á að strákarnir næðu yfirhöndinni í leiknum.

Undirritaður veit ekki hvað þjálfarateymi FH-inga sagði við liðið í leikhléi þessu, en það virkaði greinilega eins og vítamínsprauta fyrir heimamenn. FH-ingar tóku öll völd á vellinum, með Ólaf Guðmundsson fremstan í flokki, og voru með öruggt 5 marka forskot þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik – staðan 17-12 fyrir FH.

Ljótt atvik átti sér stað á lokasekúndum leiksins. Afturelding átti síðustu sókn hálfleiksins og barst Bjarna Þórðarsyni boltinn við miðju þegar tvær sekúndur voru eftir af hálfleiknum. Hann tók skotið og endaði það beint í andliti stórskyttunnar Ólafs Guðmundssonar, sem hneig niður sem rotaður væri í kjölfarið. Óviljaverk en afskaplega ljótt að sjá. Óttuðust margir um heilsu Ólafs vegna atviksins, enda virtist hann vera hálf rænulaus eftir negluna. Hann var þó langt frá því rænulaus og sýndi það svo sannarlega í seinni hálfleik.

Seinni hálfleikur
Mosfellingar mættu síðan ákveðnir til leiks í seinni hálfleik eftir slappan lokakafla í þeim fyrri. Varnarleikur þeirra var bættur frá því sem áður var og náðu þeir minnka muninn allhressilega, 20-18, eftir 7 mínútna leik í seinni hálfleik. Virkaði þetta sem eins konar „deja vu“ fyrir fjölmarga FH-inga á pöllunum, en í fyrra lentu FH-ingar ansi oft í því að missa niður örugga forustu á stuttum tíma þegar á móti blés – jafnvel smávegis mótlæti gat oft brotið niður okkar menn. En ekki í kvöld. FH-ingar sýndu mikla yfirvegun þrátt fyrir smávegis mótlæti og héldu áfram að spila sinn handbolta – auk mikilla umbóta í vörn, sem leiddi til þess að Pálmar Pétursson í markinu datt í gang og varði það sem vörnin varði ekki fyrir hann. Þennan meðbyr nýttu FH-ingar sér til fulls í sóknarleiknum.

Á 45. mínútu höfðu FH-ingar endurheimt 5 marka forskot sitt og á 53. mínútu var munurinn orðinn sex mörk, þrátt fyrir að okkar menn væru reglulega dæmdir út af með tvær mínútur fyrir misjafnlega alvarlegar sakir. Brottrekstrarnir breyttu litlu fyrir okkar menn, þeir stóðu vörnina áfram vel og sóttu af sama krafti og áður. Endaði leikurinn með sanngjörnum sigri FH-inga, 34-25.

Það sem stóð klárlega upp úr í þessum flotta leik var gríðarlega góð liðsheild hjá FH-ingum. Þeir buguðust ekki þrátt fyrir smá mótlæti, en á sama tíma í fyrra hefði annað líklega verið uppi á teningunum. Varnarleikur liðsins var einstaklega góður í sei