Í kvöld lutu FH-ingar í gólf í annað sinn í þessari viku gegn Akureyringum norðan heiða, en liðin áttust við í Höllinni á Akureyri í kvöld. Var þessi leikur þó jafnari en fyrri leikur liðanna, en í þeim leik höfðu Akureyringar lengst af drjúgt forskot. FH-ingar virkuðu greinilega ákveðnari í þessum leik en það dugði ekki til.

Fyrri hálfleikur byrjaði á þeim nótunum að Akureyringar höfðu ávallt yfirhöndina, þó sjaldnast meir en eitt mark. Þegar hann var hálfnaður höfðu Akureyringar náð sér í drjúgt 4ra marka forskot og létu það ekki af hendi það sem eftir var af – staðan í hálfleik var 13-9, Akureyringum í vil.

Í byrjun seinni hálfleiks héldu Akureyringar nokkurn veginn fengnum hlut, náðu mest 6 marka forskoti. Þá hófu FH-ingar hins vegar að leika eins og lið í toppbaráttu og náðu jafnt og þétt að saxa á forskot Akureyringa. FH-ingar náðu m.a.s. að minnka forskotið niður í eitt mark þegar einungis tvær mínútur voru eftir – rétt eins og í leik liðanna fyrr í vikunni. Sveinbjörn Pétursson í marki Akureyrar sá þó til þess að FH-ingar næðu ekki að jafna og leiknum lyktaði því með sigri Akureyringa, 25-24.

Markahæstur FH-inga í leik kvöldsins var Ásbjörn Friðriksson, en hann skoraði 7 mörk. Næstur honum kom Ólafur Guðmundsson með 5 mörk. Pálmar Pétursson varði vel í markinu, en hann átti skv. frétt Mbl.is 16 skot varin.

Miðað við þróun leikja kvöldsins er ljóst að FH-ingar ljúka annarri umferð í 4. sæti deildarinnar, og þýðir það að þeir þurfa að leika við Akureyringa í þriðja skiptið á einni viku.  Fer sá leikur fram í Krikanum á mánudaginn næsta, 21. febrúar. Það er á hreinu að góð mæting er nauðsynleg á þann leik, ef FH-ingar eiga að leggja toppliðið að velli. Meira um leikinn síðar!

Við erum FH!

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 7, Ólafur Guðmundsson 5, Örn Ingi Bjarkason 4, Baldvin Þorsteinsson 3, Ólafur Gústafsson 2, Atli Rúnar Steinþórsson 2, Ari Magnús Þorgeirsson 1.