Annarri umferð íslandsmóts karla í handknattleik lýkur á morgun þegar FH-ingar mæta Akureyringum í Höllinni á Akureyri. Þetta er önnur viðureign liðanna í Höllinni í þessari viku, en liðin mættust einmitt á mánudaginn í undanúrslitum bikarsins. Þar unnu Akureyringar sigur, og FH-ingar hafa því harma að hefna í leik liðanna á morgun.

Akureyri
Akureyringar sitja á toppi N1-deildar karla eftir 13 leiki með 23 stig, fjórum stigum á undan Fram og sex stigum á undan FH-ingum. Akureyringar hafa unnið 11 leiki, gert eitt jafntefli en einungis tapað einum leik.

Norðanmenn hafa setið á toppi deildarinnar frá byrjun og hafa verið manna bestir á öllum sviðum, sérstaklega varnarlega séð. Varnarleikur liðsins er feikilega sterkur og skilar sér í fjölmörgum hraðaupphlaupum, en þar eru menn eins og Bjarni Fritzson og Oddur Gretarsson manna fremstir.

Síðasti leikur Akureyringa í deildinni var gegn Selfyssingum á Selfossi. Þar unnu Akureyringar átta marka sigur, 26-28, eftir að hafa verið 16-13 yfir í hálfleik. Síðasti leikur Akureyringa var hins vegar gegn FH-ingum í Höllinni mánudaginn síðastliðinn, en þar höfðu þeir góða yfirburði lengst af og unnu tiltölulega öruggan 3ja marka sigur, 23-20.

Fyrri leikir liðanna
Fyrri leikur liðanna tveggja í deildinni fór fram í Kaplakrika þann 20. nóvember síðastliðinn. Þar unnu Akureyringar öruggan sigur, 33-25, í leik þar sem þeir réðu ferðinni allan tímann og FH-ingar gerðu sig aldrei líklega til að standa upp í þeim.

FH
FH-ingar sitja í 3. sæti N1-deildarinnar með 17 stig, tveimur stigum á eftir Frömurum í 2. sætinu en stigi á undan HK-ingum í 4. sætinu. Þeir hafa unnið 8 leiki, gert eitt jafntefli en  tapað fjórum leikjum.

Ljóst er að FH-inga bíður ærið verkefni ef þeir ætla að vinna sigur á Akureyri á morgun. Fyrst og fremst verða þeir að finna lausnir á varnarleik Akureyringa, en það tókst þeim ekki nægilega vel í bikarleiknum á mánudaginn. Þar að auki verður varnarleikurinn að vera upp á sitt besta, en hann var ekki nægilega góður lengst af í leiknum. Verði þessi atriði í lagi þá eiga FH-ingar góða möguleika á að skáka Akureyringum.

Leikurinn er eins og áður sagði á morgun, fimmtudaginn 17. febrúar 2010, og hefst hann kl. 19:00. Við hvetjum að sjálfsögðu alla FH-inga á Norðurlandi til að mæta á völlinn og hvetja okkar menn. Annars  er óvíst hverjir næstu mótherjar FH-inga verða, en að öllum líkindum fer sú viðureign fram þann 21. febrúar næstkomandi.

Við erum FH!