1 – Jæja Jón Páll. stórleikur í dag, hvernig leggst hann í þig?
Auðvitað leggst þessi leikur stórvel í mig. Við töpuðum afar illa síðast
þegar haukarnir komu í heimsókn og ég er alveg viss um að liðið mæti
til leiks með drápseðlið á réttum stað í dag. Reyndar verð ég að koma
inná að FH-liðið hefur unnið afar vel úr sínum málum eftir tapið gegn
þeim rauðu síðast og hefur sparkað sér duglega frá þeim botni sem leikur
liðsins náði í þeim leik.
Það er líka gott að vita til þess að margir leikmenn hafa verið að koma
sterkir inn úr meiðslum og eða eru bara að nýta tækifærið sitt eins og
Ari Ketill gerði í síðasta leik.
Það er eitthvað sem segir mér að þessi dagur verði eitthvað meira en
venjulega góður. Það er Beyonneskinka með sveppasósu og kryddkartöflum í
matinn í skólanum í dag. Væntanlega tekinn einn baukur af kók með því.
Svo er planið að fara á saffran fyrir leik og pubquiz eftir leik. Sigur
gegn haukum með þessu öllu og maður leggst vel skrúfaður á koddann í
kvöld.

2 – Hverjir teluru að séu styrkleikar Hauka?

Þeir eru með góðan markmann og eru fínir í vörn. Þeir hafa líka náð
góðum árangri undanfarin ár og það hefur skapast ákveðin sigurhefð hjá
haukunum sem er ómetanleg fyrir þá.
Það eru aftur á móti mun fleiri veikleikar á haukaliðinu í ár en mörg
undanfarin ár. Ég treysti strákunum til að notfæra sér þá veiklega og
slátra leiknum.

3 – FH-Haukar slagir eru alltaf miklir slagsmálaleikir. Verður ekki
barist á morgun þótt FH sé komið í úrslitakeppni?


Það skiptir nákvæmlega engu máli hvort að FH sé komið í úrslitakeppnina
eða heimsmeistarakeppnina þegar þessi leikur er á dagskrá. Þetta er bara
stríð og ef menn mæta ekki klárir þá verða menn bara rassskelltir og
það vill enginn íþróttamaður láta rassskella sig á sínum heimavelli gegn
aðal andstæðingnum. Knattspyrnudómarar eru reyndar eitthvað í
flengingunum núna en það er vafaatriði hvort þeir séu íþróttamenn.
Staðan í deildinni er líka þannig að öll stig sem eru eftir telja mjög
mikið. FH liðið er til dæmis ekki búið að tryggja sér 2.sætið í
deildinni en geta gert það með sigri á morgun.
HK og Valur eiga einnig möguleika á að komast í úrslitakeppnina og það
væri einfaldlega vanvirðing hjá FH-liðinu gagnvart öðrum liðum, okkur
sjálfum og íþróttinni í heild ef liðið myndi mæta með öðru hugarfari en
að sigra þessa tvo leiki.
Það vita það allir að haukarnir töpuðu síðasta leiknum viljandi í fyrra
til þess að FH kæmist ekki í úrslitakeppnina. FH hafði því miður komið
sér í þá stöðu að þurfa að treysta á haukana sem var bagalegt og getum
við kennt okkur sjálfum um það. Haukarnir urðu sér til skammar í
lokaleiknum gegn Akureyri þegar þeir settu sína bestu menn upp í stúku
og skíttöpuðu leik sem þeir höfðu þó í hendi sér í hálfleik.
FH mun aldrei fara á svo lágt plan.

4 – Lokaskilaboð til FH-inga 🙂 ?

Já að sjálfsögðu eru skilaboðin til allra FH-inga að mæta snemma í
Kaplakrika í kvöld og njóta þess sem vaskir stjórnarmenn í handboltanum
eru búnir að skapa – það er magnaða umgjörð um heimaleiki liðsins.
Það er bókað að leikurinn verður magnaður og því hvet ég fólk til að
standa á bak við liðið, það skiptir miklu J
Svo vil ég líka benda öllum á að það er að koma nýtt FH-lag bráðlega.
Kristmundur Guðmundsson og fleiri eru að dúttla í því þessa dagana og
mun ég verða þeim innan handar við flutning lagsins þar sem ég mun spila
á hringlu.