FH sigraði í kvöld Val í sögulegum leik í Kaplakrika. Leikurinn fór
nefnilega í vítakastkeppni eftir 2 framlengingar. Hér að neðan má sjá
umfjöllun Sport.is um leiknn:

FH-ingar eru Meistarar meistaranna eftir hádramatískan leik gegn Val
þar sem framlengja þurfti í tvígang. Það dugði þó ekki til þess að
knýja fram sigurvegara og réðust úrslitin því í vítakeppni. Það má því
segja að handboltinn hafi byrjað með látum en hann hefst formlega á
mánudaginn með leikjum í N1-deild karla.

FH 39-38 Valur (17-13) (27-27) (31-31) (35-35)

Íslandsmeistarar FH byrjuðu betur í kvöld og skoruðu fyrstu fjögur mörk
leiksins. Sókn FH, með Andra Berg Haraldsson í broddi fylkingar var
afar sannfærandi og réð vörn Valsmanna lítið við góðar sóknir lengi vel
í hálfleiknum. Valsarar hresstust aðeins eftir því sem á leið á
hálfleikinn án þess þó að ná að ógna forystu FH af einhverju viti en
minnstur var munurinn tvö mörk í stöðunni 12-10. Fyrrnefndur Andri Berg
var í miklu stuði í liði FH í fyrri hálfleiknum og fékk á löngum köflum
að skjóta nánast að vild og uppskar fyrir vikið sjö mörk í hálfleiknum.
Valsmenn sýndu einnig lipra takta á köflum en það voru heimamenn í FH
sem voru yfir með fjórum mörkum í hálfleik, 17-13.

Valsmenn byrjuðu síðari hálfleikinn talsvert betur en þann fyrri og
voru fljótlega búnir að minnka muninn niður í eitt mark. Þeir fengu
þónokkur færi til þess að jafna leika en það var helst Daníel
Andrésson, markvörður FH-inga sem stóð í vegi fyrir því enda var Daníel
í miklu stuði framan af síðari hálfleik. FH-ingar lentu í basli með að
hrista Valsara af sér aftur og þegar 15. mínútur voru eftir af leiknum
munaði einungis tveimur mörkum og útlit fyrir spennu seinustu
mínúturnar. Valsarar náðu svo loksins að jafna leikinn í stöðunni 22-22
þegar að 12 mínútur voru eftir af leiknum. Þegar rétt rúmar fimm
mínútur voru eftir fengu Valsmenn kjörið tækifæri til þess að komast
yfir en Daníel Andrésson varði frábærlega úr hraðaupphlaupi frá Sturlu
Ásgeirssyni. Sturlu brást þó ekki bogalistinn stuttu síðar þegar hann
fékk samskonar tækifæri og kom Valsliðinu yfir í fyrsta sinn í leiknum,
staðan 26-27 fyrir Val. Þegar mínúta var eftir var staðan svo jöfn,
27-27 og spennan í hámarki. Hvorugu liðinu tókst að koma inn marki og
því þurfti að framlengja leikinn.

FH-ingar byrjuðu framlenginguna betur, skoruðu 3 af þeim fjórum mörkum
sem skoruð voru í fyrri hluta framlengingarinnar og voru því með
tveggja marka forystu þegar framlengingin var hálfnuð. Valsmenn svöruðu
því með að skora fyrstu tvö mörk síðari hlutans og jafna þar með
leikinn. Spennan var gjörsamlega að fara með menn og þegar að mínúta
var eftir voru Valsarar einu marki yfir en jafnframt þremur leikmönnum
færri. Þremur Valsmönnum tókst ekki að halda út forystuna og FH-ingar
náðu að jafna, leiktíminn rann út og því þurfti aðra framlengingu.

Í seinni framlengingunni byrjuðu Valsmenn þremur færri og FH-ingar
nýttu sér það til að skora fyrsta markið. Valsarar voru svo fljótlega
komnir með fullskipað lið og náðu að jafna leikinn á ný. Valsmenn voru
svo einu marki yfir þegar að síðari framlengingin var hálfnuð og
spennan í Kaplakrikanum var rafmögnuð. Aftur náðu FH-ingar að jafna
leikinn og virtist hreinlega útilokað að knýja fram sigurvegara. Þegar
að þrjátíu sekúndur voru eftir var staðan enn jöfn og húsið hreinlega
að klofna af spennu. Bæði lið fengu tækifæri til þess að tryggja sér
sigur en allt kom fyrir ekki, leiktíminn rann út og því þurfti að grípa
til vítakastskeppni.

Bæði lið nýttu fyrstu tvö vítin sín en misnotuðu síðan þá næstu.
Baldvin Þorsteinsson skoraði svo úr síðasta víti FH-inga og því pressan
mikil á Sturlu Ásgeirssyni fyrir seinasta vítakast Vals. Hann skaut í
slánna úr vítinu og FH-ingar urðu þar með Meistarar meistaranna.
FH-ingar hreinlega ærðust af fögnuði enda hafði spennan verið gríðarleg.

Leikurinn í kvöld bar þess greinilega merki um að handboltaleiktíðin er
rétt að fara af stað, en lofar aftur á