A-lið 5. flokks karla stóð í ströngu um síðustu helgi í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Eftir að hafa komist upp úr milliriðli kom í hlut strákanna að leika í undanúrslitum síðastliðinn laugardag.  Leikið var gegn Breiðabliki 2 á Smárahvammsvelli í Kópavogi og sigruðu FH-strákarnir 2-1 í góðum leik þar sem Kristófer Dan Þórðarson og Magnús Fannar Magnússon gerðu lagleg mörk. Þetta þýddi að liðið var komið í úrslitaleik Íslandsmótsins sem fram fór á sunnudeginum og við Breiðablik 1.

Úrslitaleikurinn var jafn og spennandi allan tímann, FH-strákarnir börðust eins og ljón og sýndi oft góða takta en máttu sætta sig tap, 2-1,  í leik sem gat endað hvernig sem var.  Mark FH í leiknum gerði varnarjaxlinn Jón Eyjólfur Guðmundsson.

Silfrið var því hlutskipti FH-inga að þessu sinni og verður að teljast virkilega góður árangur hjá strákunum. Gaman er að segja frá því að flokkurinn er gríðarlega fjölmennur og þar má finna fjölmarga metnaðarfulla stráka sem hafa lagt mikið á sig á tímabilinu og tekið framförum í takt við það.