Á síðustu vikum hafa fjórir öflugir landsliðsmenn gengið til liðs við Frjálsíþróttadeild FH.

Um er að ræða þau Hilmar Örn Jónsson, Örnu Stefaníu Guðmundsdóttur, Juan Ramon Borges Bosque og Ara Braga Kárason.

 

Hilmar Örn Jónsson er einn efnilegasti sleggjukastari á Íslandi og í heiminum í dag. Hilmar Örn sem æft hefur í Kaplakrika undir dyggri leiðsögn Eggerts Bogasonar undanfarin ár er núverandi Íslandsmethafi í öllum yngri aldursflokkum í sleggjukasti og á þessu ári hefur hann sett mörg Íslandsmet í flokki pilta 18-19 ára með bæði 7,25 kg og 6 kg sleggju. Hilmar Örn varð Íslands- og Bikarmeistari í greininni í fullorðinsflokki, Norðurlandameistari U20 og er á meðal fremstu manna í heiminum í sleggjukasti í sínum aldursflokki, þá er hann fastamaður í landsliði Íslands.

 

Arna Stefanía Guðmundsdóttir hefur verið meðal fremstu hlaupara og sjöþrautarkvenna landsins undanfarin ár og hefur átt fast sæti í landsliði Íslands. Arna hefur glímt við erfið meiðsli frá því snemma í sumar en er á góðum batavegi. Hún mun koma til með að styrkja sterkt kvennalið FH enn frekar.

 

Juan Ramon Borges Bosque hefur verið meðal öflugustu spretthlaupara og langstökkvara  landsins í yngri flokkum síðustu ár og er í dag landsliðmaður í boðhlaupi. Ramon var í sveit Íslands sem setti Íslandsmet í 4×100 mn boðhlaupi í sumar og bætti tæplega 20 ára gamalt Íslandsmet í greininni.

 

Ari Bragi Kárason, er einn fremsti spretthlaupari landsins í dag og landsliðsmaður í greininni. Hann byrjaði keppni í frjálsíþróttum 2013 og framfarir hans eru mjög miklar á þessum stutta tíma. Ari Bragi var í sveit Íslands sem setti Íslandsmet í 4×100 mn boðhlaupi í sumar og bætti tæplega 20 ára gamalt Íslandsmet í greininni.

 

Frjálsíþróttadeild FH býður þau velkomin til liðs við sterkan og öflugan hóp félagsins og væntir mikils af þeim á komandi árum.