Arnar Freyr Ársælsson skrifaði í dag undir tveggja ára samning við handknattleiksdeild FH. Arnar Freyr er 22ja ára vinstri hornamaður sem hefur allan sinn feril leikið með Fram. Arnar Freyr, sem á leiki með öllum yngri landsliðum Íslands, var einn af betri leikmönnum Fram á síðasta tímabili og var m.a. valinn „mikilvægasti leikmaður“ tímabilsins á lokahófi liðsins. Halldór Jóhann, þjálfari FH, var að vonum kátur með nýjasta leikmanninn: „Ég er mjög ánægður að fá Arnar Frey til liðs við okkur. Hann er metnaðarfullur leikmaður sem mun styrkja okkur mikið“ sagði Halldór við fh.is. „Ég þekki til hans, enda þjálfaði ég hann þegar hann var yngri. Hann er ósérhlífinn og hefur marga kosti, m.a. þann að geta spilað margar stöður í vörn sem getur gefið okkur ýmsa möguleika“ sagði Halldór Jóhann að lokum.

Handknattleiksdeild FH býður Arnar Frey hjartanlega velkominn í Kaplakrika.
Á myndinni sjáum við Arnar Frey og Sigurgeir Árna Ægisson, framkvæmdastjóra hkd. FH, handsala samninginn.