Orri Þórðarson endurráðinn þjálfari meistarflokks kvenna

Hákon Atli Hallfreðsson ráðinn aðstoðarþjálfari

img_5883

FH hefur gengið frá þjálfaramálum næsta tímabils hjá meistaraflokki kvenna. Orri Þórðarson hefur endurnýjað samning sinn við félagið um þjálfun meistaraflokks kvenna. Þetta verður þriðja árið sem Orri stýrir liðinu en á fyrsta ári hans með liðið vann það sér sæti á nýjan leik í úrvalsdeildinni. Á síðustu leiktíð náði liðið svo að halda sæti sínu í deild þeirra bestu með mjög góðum árangri. Markmiðið er því að byggja ofan á þennan góða árangur síðustu tveggja ára og halda áfram að bæta stöðu FH í kvennaboltanum.

Orra til aðstoðar í meistaraflokki kvenna hefur verið ráðinn Hákon Atli Hallfreðsson. Hann mun einnig sinna styrktarþjálfun liðsins ásamt því að þjálfa 2. flokk kvenna. Hákon Atli Hallfreðsson er öllum FH-ingum að góðu kunnur enda mikill FH-ingur þar á ferð. Um leið og við bjóðum Hákon Atla velkominn til starfa þá þakkar kvennaráð FH Guðna Eiríkssyni frábær störf í þágu meistarflokks og 2. flokks kvenna á síðustu tveimur árum.

FH hefur fullan hug á því að halda áfram að styrkja stöðu kvennaboltans. Árangurinn á síðasta tímabili sýnir að stelpurnar eru á réttri braut og það er mikilvægt að halda áfram að feta þá braut. Enda er efniviðurinn góður sem sýnir sig best í því að uppistaðan í liðinu á síðasta tímabili voru ungir og efnilegir leikmenn sem aldir eru upp hjá félaginu. Mikilvægt er að FH-ingar haldi áfram að styðja vel við bakið á stelpunum.