Kaplakriki er sprunginn!

Fimleikafélag Hafnarfjarðar (FH) er nú eitt fjölmennasta knattspyrnufélag á Íslandi auk þess að vera langfjölmennasta íþróttadeild Hafnarfjarðar. Nú stunda um eitt þúsund einstaklingar knattspyrnuæfingar hjá FH og hefur þeim fjölgað hratt á undanförnum árum. T.a.m. fjölgaði iðkendum í 3.-8. flokki um 12% á árinu 2016. Þeir sem standa að knattspyrnustarfi innan FH eru vitaskuld stoltir af þessum áhuga; það er eftirsóknarvert að æfa og keppa í knattspyrnu fyrir FH og það þarf í raun engum að koma á óvart.

Innan félagsins er rekið mikið og gott faglegt starf og hjá því starfar fjöldi þjálfara með mikla menntun og reynslu. Fjölmargir vinna auk þess afar óeigingjarnt starf og leggja þannig félaginu í sjálfboðavinnu til að gera starfið enn betra, s.s. foreldar, dómarar og ótal aðrir, og halda þannig merkjum FH á lofti. Við erum sannarlega FH!

Síðustu ár hafa knattspyrnuiðkendum í FH, þjálfurum og forráðamönnum verið gefin fyrirheit um úrbætur í aðstöðumálum í Kaplakrika til að mæta auknum fjölda iðkenda. Hafa þessir aðilar sýnt fyrirhuguðum framkvæmdum mikla þolinmæði og séð í gegnum fingur sér með bága aðstöðu, enda haft væntingar um um brátt verði gerð myndarleg bragarbót í þessum efnum. Eins og alkunna er hefur FH byggt upp æfingaaðstöðu á eigin kostnað á undanförnum árum, án aðkomu Hafnarfjarðarbæjar. Má nefna að barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar FH (BUR), fyrir hönd foreldra iðkenda, gerði fordæmalausan samning um að greiða fyrir afnot að Dvergnum, knatthúsi sem tekið var í notkun í Kaplakrika árið 2015. Það hlýtur að vera einsdæmi hér á landi að foreldrar greiði með beinum hætti fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja með þessum hætti. BUR hafði væntingar um að afla tekna með mótahaldi í knatthúsunum en vegna hins mikla fjölda iðkenda eru húsin nánast einvörðungu nýtt undir skipulagðar æfingar.

20 ára keppnisvöllur sem ekki er í löglegri stærð

Sú aðstaða sem byggð hefur verið upp í Kaplakrika er allra góðra gjalda verð. Hún dugar hinsvegar engan veginn til að mæta þeim mikla fjölda barna og unglinga í Hafnarfirði sem nú vilja æfa og keppa í knattspyrnu fyrir FH og er í raun langt frá því að vera boðleg. Óhætt er að fullyrða að neyðarástand hafi ríkt í aðstöðumálum knattspyrnufólks í FH undanfarin ár. Iðkendum hefur fjölgað verulega en aðstaðan staðið í stað.

Í Kaplakrika er t.a.m. ekki löglegur keppnisvöllur sem hægt er að nýta til æfinga og keppni árið um kring. Gamli gervigrasvöllurinn í Kaplakrika var tekinn í notkun árið 1997. Hann er næstum því 20 ára gamall og hefur aldrei verið skipt um undirlag, hann því harður eins og malbik og getur beinlínis verið hættulegur þeim sem þar stunda æfingar. Auk þess er hann ekki upphitaður, við hann er engin flóðlýsing og hann er ekki í löglegri stærð. Yfir vetrartímann, frá miðjum október til byrjun maí, þarf FH að annast heimaleiki á vegum KSÍ. Eina aðstaðan sem FH hefur til að spila heimaleiki frá 1. október – 1. maí eru 7 klst. á viku á sunnudögum á Ásvöllum.

FH ekki með í vetrarmótum KSÍ

Undanfarin ár hefur FH því þurft að reiða sig á velvild annarra félaga að hýsa stóran hluta heimaleikjanna með tilheyrandi aukakostnaði fyrir knattspyrnudeild FH, auk þess sem það reynir á þanþol foreldra, þjálfara, dómara og annarra sem að koma. Fyrir þetta erum við vitaskuld afar þakklát en undanfarið hefur borið á því að þessi félög eru einfaldlega ekki tilbúin eða megnug að hjálpa okkur með þetta áfram. Er nú svo komið að FH fær ekki lengur að taka þátt í vetrarmótum á vegum KSÍ vegna skorts á keppnisaðstöðu og væntanlega mun brátt sama gilda um hluta sumarmóta á vegum sambandsins. Slíkt yrði iðkendum, þjálfurum og forráðamönnum mikið áfall og um leið til skammar fyrir forsvarsmenn FH og Hafnarfjarðarbæjar, svo ekki sé nú talað um aðgerðir á borð við takmörkun iðkenda, hækkun æfingagjalda eða fækkun æfinga.

Mismunun sem krefst skýringa frá bæjaryfirvöldum

Nú er þolinmæði foreldra á þrotum. Á það skal minnt að foreldrar þeirra sem stunda æfingar og keppni í knattspyrnu fyrir FH greiða jafn háa skatta og skyldur til Hafnarfjarðarbæjar og foreldrar barna sem stunda æfingar og keppni fyrir önnur félög í Hafnarfirði. Það er lítið réttlæti í því fólgið að foreldrar í FH fái minna fyrir sína skattpeninga en aðrir foreldrar í Hafnarfirði. Það er í raun mismunun og kreft skýringa af hálfu bæjaryfirvalda.

FH hefur lagt fram tillögur um uppbyggingu knattspyrnuaðstöðu til framtíðar í Kaplakrika, tillögur sem byggja á reynslu félagins af því sem áður hefur verið gert. Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar FH skorar því bæjarstjórn Hafnarfjarðar að beita sér fyrir því, ásamt forsvarsmönnum félagins, að iðkendur, þjálfarar, forráðamenn og aðrir stuðningsmenn fái þá aðstöðu í Kaplakrika sem þeir verðskulda sem allra fyrst.

Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar FH

 

Hér má sjá önnur gögn meðal annar samning FH knatthúsa við Hafnarfjarðarbæ og greinagerð íþróttafulltrúa sem lög var fram í Bæjarráði í síðustu viku. Þar kemur fram greinilega vöntun hjá FH.

 

samningur um risann

Hér má sjá greinagerð Íþróttafulltrúa Hafnarfjarðar