Ég er heppinn ungur maður. Æska mín litast af því að ég var umvafinn góðu fólki og útkoman af því er sá eðalmaður sem ég er í dag. Dóttir mín, hundurinn Pamela, nýtur nú góðs af því. Í leikskóla var ungrú heimur, Hófi, barnsfóstran mín og þegar Pálmi Píp og Gunna golfari voru vant við látin þá sá amma mín um að halda aga á mér og ótemjunni henni systur minni. Amma okkar var Austur-Þjóðverji og gaf ekki tommu eftir. Ég gleymi því aldrei þegar Ásdís systir var 12 ára og var þyrst og amma átti ekkert nema Heineiken í ískápnum. Ásdís neitaði að drekka bjórinn. Ekki oft sem hún segir nei við áfengi!

Það merka ár 1982 litaðist af tvennu. Ég fæddist og Fhákarlar hófu æfingar í íþróttahúsinu á Álftanesi klukkan 18.00 á fimmtudögum. Hryggurinn í Fhákörlum eru góðir menn sem léku fyrsta bikarúrslitaleik í sögu Fimleikafélagsins gegn ÍBV þann 12.nóvember 1972 – fyrir 45 árum síðan. Ég, ásamt öðrum afkvæmum Fhhákarla vorum tíðir gestir á æfingum. Steini Arndal, Arnar Þór, Davíð Þór og Bjarni Þór og Hjörtur Þóris sátum á hliðarlínunni og fylgdumst með og lærðum að rífa kjaft. Á þessum æfingum var nefninlega alls ekki talað undir rós. Þórir Jóns kenndi mér frasann „frændi, ég er langbestur“ á þessum tíma. Viddi Halldórs og Þórir voru í minningunni aldrei saman í liði. Báðir töldu sig besta. En þeir voru það ekki. Geiri Arnbjörns var bestur. Fíflaði menn upp úr skónum á dúknum og var í minningunni skotfastari en Ronald Koeman og leiknari en David Ginola. Eftirminnilegur karakter var líka Onni dúkari. Onni var alltaf kolvitlaus í skapinu. Hann rauk út af annari hverri æfingu, gargaði á menn að hann myndi aldrei koma aftur áður en hann skellti hurðum. Viddi og Ingvar Viktors hlógu og sögðust hafa heyrt þennan áður. Ég var alltaf hálf hræddur við Onna, en Guðrún konan hans var og er svo indæl að ég ályktaði að hann hlyti að vera topp maður.

Eftir æfingar var farið í pottinn í sundlauginni. Við guttarnir fyrstir. Þegar svo allir hákarlarnir voru mættir ofaní pottinn, sem hefur ekki verið mikið stærri en meðalstórt baðkar, voru svona 3 lítrar af vatni eftir í pottinum !

Eiginkonur og kærustur þessara manna voru svo saman í “saumaklúbb” í mörg ár. Enska orðið WAGS er upprunulega um þessar konur. Mamma hélt samkomu fyrir slúðurkonurnar reglulega og ég gerði það að leik mínum er ég var í kringum tvígugt þegar langt var liðið á kvöldið að koma úr herberginu mínu og spyrja Gunnu Bjarna hvað væri að frétta af Arnari, Davíð og Bjarna. Það þýddi minnst 45 mínútna lofræða um prinsana sem á þessum tíma voru allir komnir út í atvinnumennsku, mömmu til lítilla gleði því hún hefur nákvæmlega engan áhuga á knattspyrnu.

Þessir gæjar eru í raun fyrsta kynslóð knattspyrnumanna í FH sem eitthvað gátu í fótbolta. Á þessu herrans ári 1972 sem bikarúrslitaleikurinn var spilaður léku þeir í næst efstu deild. Þeir voru taldir eitt efnilegasta lið landsins, töpuðu ekki leik en komust þó ekki upp um deild. En í bikarúrslit fór þeir. Á ársþingi KSI 1971 var ákveðið að bikarúrslitaleikurinn yrði spilaður í september árið eftir. Veðurfarið sumarið 1972 var víst hörmulegt. Svo vont að úrslitaleikurinn var ekki leikinn fyrr en 12.nóvember eins og áður segir. Ástæðan aðallega sú að Eyjamenn komust ekki af eyjunni fögru yfir á fastalandið. Að endingu varð niðurstaðan sú að landhelgisgæslan sótti liðið á varðskipi og flutti þá á fastalandið.

Leikurinn var spilaður á sunnudegi í nístingskulda og norðanátt á mölinni á Melavellinum. FH liðið var þannig skipað að Ómar Karls var í markinu. Dr. Janus Guðlaugs, Dýri Guðmunds, Onni Dúkari og Gunni Bjarna stóðu vaktina í vörninni. Pabbi og Viddi Hall voru á miðjunni og Geiri Arnbjörns og Óli Dan voru á vængjunum. Helgi Ragg og Leifur Helga voru frammi. Danni Pé, Logi Ólafs og Frikki Jóns voru á bekknum. Þetta er rosalegt lið.

Leikurinn átti að fara fram helgina áður og þá átti Leifur Helga að byrja á spýtunni en Logi Ólafs að byrja. Logi hefur sagt að viku seinna var hann ekki nægilega góður og því var Leifur í liðinu !

Þjálfari FH var Skotinn Duncan McDowell en það er til marks um breytta tíma að hann var farinn heim til Skotlands og því var Halldór Fannar þjálfari í þessu leik. Þessi Skoti var greinilega karakter. Hann var ekkert að flækja hlutina ef hann var ekki viss um hvernig liðið átti að vera á einhverjum tíma yfir sumartímann. Hann bjó á Hringbraut 58 í kjallaranum hjá Ingvari Viktors. Staðurinn á þessum tíma var kallaður Club 58 😉 Einhverntíman hafði hann ákveðið að taka leikmann úr liðinu og bauð honum í heimsókn í kjallarann. Þar sem hann kom frá Skotlandi þá bauð hann mönnum í Wiskey og jafnvel fleiri en tvo eða þrjá. Daginn eftir þegar hann svo tilkynnti lið og drykkufélaginn var kominn á bekkinn þá var svarið einfalt þegar leikmaðurinn var ósáttur – viðkomandi hafði verið að drekka kvöldið fyrir leik !
En að sjálfum leiknum. Eyjamenn sigruðu 2-0 og voru heilt yfir verðugir sigurvegarar segja mér allar heimildir. Vendipunktar leiksins voru þó þrír. Í stöðunni 1-0 er Helgi Ragg sparkaður niður rétt fyrir utan vítateig en stendur tæklinguna af sér og er kominn einn gegn markverði Eyjamanna. Einar dómari var of fljótur á sér og flautaði aukaspyrnu og kom í veg fyrir að Helgi jafnaði leikinn.

Það var þó fyrir leik sem Eyjamenn unnu stríðið. Þegar menn gengu til leiks voru allir leikmenn FH klárir á stuttbuxum. Ekki gleyma því að í gamla daga léku menn varla í stuttbuxum, frekar er hægt að kalla þessar stuttbuxur sundskýlu sem menn notuðu til að hylja sitt allra heilagasta. Eyjamenn mættu aftur á móti í síðbuxum til leiks! Í hálfleik komu FH-ingar einnig út í síðbuxum þar sem vindkælingin var gríðarleg. Einar dómari rak okkar menn úr buxunum, sagði að þeir hefðu hafið leik í stuttbuxum og skyldu ljúka leik á stuttbuxum.

Allir þeir leikmenn sem voru í liðinu og í kringum liðið hjá FH hafa lagt ómælda vinnu fyrir félagið síðustu áratugi. Þetta eru okkar bestu menn. Það er einlæg von mín að allir FH-ingar sem eigi heimangengt mæti í Kaplakrika snemma á laugardag og njóti þess dagsins. Mínir menn í Ölbræðrum hafa staðið sig vel að smíða flotta dagskrá á laugardag. Ég og Pamela eigum ekki heimangengt, við spilum leik við munkana í Lysekloster í Bergen snemma á laugardag en munum horfa á leikinn og fagna sigri FH í lok leiks.
Það voru 20.000 manns í Herjólfsdal á laugardag, það verða í mesta lagi 20 manns í Eyjum á meðan leik stendur. FH-ingar verða að mæta, styðja strákana sem munu gera allt til þess að skila bikarnum heim. Ekki svo gleyma að deildin er ekki búin. Draumurinn um að taka tvennuna lifir.

Áfram FH.

Kv,
JP&Pam