Hér má sjá leigusamningum okkar FHinga við Hafnarfjarðarbæ vegna Risans. Eins og sjá má er Hafnarfjarðarbær að taka á leigu ákveðinn fjölda tíma og greiðir fyrir það umsamda upphæð. Vakin er athygli á að til æfinga eru 1232 tímar á ári. Hér er um að ræða hefðbundinn leigusamning sem flestir þekkja þar sem leigugjald er nýtt til þess að greiða m.a. fjárfestingu, viðhald og rekstur.

 

Einnig má sjá niðurstöðu þarfagreiningar sem unnin var af íþróttafulltrúa Hafnarfjarðarbær Geir Bjarnasyni, en þar stendur það svart á hvítu að vöntun knattspyrnudeildar FH er 103 tímar á viku.

Fyrir þá sem ekki sjá myndinar vel hér að ofan eru þær hér í PDF skjali: þörf FH og Hauka

„Niðurstaða
Það er þörf á auknu æfingarrými á veturna. Auknar vinsældir fótboltans eru sýnilegar í öllum gögnum sem skoðuð voru. Hægt er að létta á þörfinni fyrir auknu rými með aðgerðum sem ekki er mælt með að farið verði í eins og að takmarka fjölda iðkenda, takmarka rými, hækka gjöld og fækka æfingum. Mælt er með að finna aðrar leiðir til að koma til móts við óskir og þær þarfir sem skapast við auknar vinsældir fótboltans eins og að koma útigervigrasvelli á Kaplakrika í lag, að byggja yfirbyggt fótboltahús, nýta parketgólf fyrir yngstu æfingahópanna eða leigja hjá öðrum sveitarfélögum æfingaraðstöðu inni fyrir eldri hópanna. Fjölgun hefur orðið meðal iðkenda bæði hjá FH og Haukum. Erfitt er að spá um framhaldið s.s. getur aðstöðumál spornað gegn fjölgun. Miðað við þróun síðustu ára má reikna með að íbúum fjölgi um ca 600 manns á árinu 2017 eða 2,1%, og 750 manns 2018 (2,6%) og 2019 (2,5%). Ef stuðst er við þá fjölgun sem hefur átt sér stað síðustu misseri í fótboltanum í Hafnarfirði mun fjöldi iðkenda aukast umfram þessa spá. Að meðaltali hefur iðkendum hjá FH fjölgað um 30% milli ára síðustu þrjú ár samkvæmt Nora skráningarkerfinu. En hjá Haukum hefur þeim fjölgað um 13% samkvæmt sama gagnagrunni. Að jafnaði eru um 400 börn í hverjum árgangi í grunnskólum bæjarins. Sem dæmi eru í 5. flokki karla og kvenna hjá Haukum og FH um 280 börn skráð í fótbolta af um 800 börnum í árgöngunum tveim. Heildarfjöldi barna í Hafnarfirði verður því einnig takmarkandi þáttur varðandi vöxt greinarinnar. Varðandi ósk minnihlutans að meta allar íþróttagreinar þá er hreinlega ekki tækifæri hjá undirrituðum að gefa sér þann tíma sem þarf til þess. Þörf er á slíku mati fyrir allar greinar og stöðugt þarf að meta samspil iðkenda, íþróttafélag og íþróttamannvirkja. Geir Bjarnason“

 

Við hvetjum FHinga til að lesa alla skýrslu Geirs sem fylgir hérna með sem viðhengi.

Hér má sjá greinagerð íþróttafulltrúa

Stjórn knattspyrnudeildar FH bendir svo foreldrum á fund sem haldinn verður um þessi mál í Sjónarhól mánudaginn 28.ágúst kl 17:30. Það er mikilvægt að forráðamenn og aðrir FHingar fjölmenni.

 

Virðingarfyllst, stjórn knattspyrnudeildar FH.