Hið árlega Golfmót FH var haldið s.l. föstudag, 8. september á frábærum golfvelli Keilismanna á Hvaleyrinni.

Þátttaka þetta árið var góð en alls luku 106 keppendur leik sem er með því mesta sem gerist í þessu móti.  Það er ánægjulegt að enn fjölgar keppendum í kvennaflokki og voru nú 23 konur sem luku leik sem er metfjöldi.

Það skemmdi ekki fyrir að veðrið lék við keppendur allan tímann auk þess sem völlurinn skartaði sínu allra fegursta.  Er það mál manna að sjaldan eða aldrei hafi Hvaleyrarvöllurinn verið í svona góðu ástandi og líktu menn vellinum við það besta sem sést erlendis.  Ólafi Þór framkvæmdastjóra, Bjarna vallarstjóra og þeirra fólki færum við okkar bestu þakkir fyrir hreint magnaðan golfvöll og aðstoð við uppsetningu mótsins.

Verðlaun voru að vanda glæsileg og skal þetta tækifæri notað til að þakka öllum styrktaraðilum okkar kærlega fyrir þeirra þátt í að gera mótið eins glæsilegt og raun bar vitni.  Það er alveg ljóst að án þeirra yrði mótið ekki hið sama.  Það er ótrúlegt hvað við FH-ingar njótum mikils velvilja þegar leitað er til fyrirtækja í aðdraganda mótsins.  Takk kærlega fyrir stuðninginn.

Veitt voru verðlaun fyrir besta skor karla og kvenna og 3 efstu sætin í punktakeppni karla og kvenna.  Auk þess var fjöldi nándarverðlauna og að lokum var dregið úr skorkortum.

Eftir velheppnaða nýjung á síðasta ári var aftur blásið til leiks á „19. holunni“ þar sem keppendur fóru að loknum 18. holu hring á æfingagrínið við golfskálann og reyndu að vippa í afmarkaðan hring á gríninu og fóru þannig í pott sem dregið var úr í verðlaunaafhendingu.

Sigurvegararar í höggleik karla og kvenna hljóta sæmdarheitið Golfari FH.  Þetta árið urðu hlutskörpust þau Ragna Björk Ólafsdóttir á mögnuðus skori eða 70 höggum og Ívar Örn Arnarson á 73 höggum.  Frábær skor hjá báðum og skor Rögnu það lægsta sem kona hefur skilað inn í sögu mótsins.

Allir sigurvegarar fengu vegleg verðlaun í boði styrktaraðila  mótsins auk þess Golfarar FH fengu veglegan farandbikar og minni eignarbikar.

Önnur verðlaun skiptust þannig:

 

Punktar – konur

 1. Ragna Björk Ólafsdóttir                      39 pkt.
 2. Guðrún Lilja Rúnarsdótir                      36 pkt.
 3. Kristín Pétursdóttir                           34 pkt.

Punktar – karlar

 1. Jóhann Adolf Oddgeirsson                   38 pkt.
 2. Róbert Magnússon                              38 pkt.
 3. Ívar Örn Arnarson                             38 pkt.

Nándarverðlaun

 1. braut             Ellý Erlingsdóttir, 1,60 m.
 2. braut             Jón Erling Ragnarsson, 1,39 m.
 3. braut           Ragna Björk Ólafsdóttir, 0,28 m.
 4. braut           Jón Ásgeir Ríkharðsson, 1,23 m.

Lengsta teighögg

 1. braut           Guðmudur Ragnar Ólafsson
 2. holan            Hafþór Hafliðason