Foreldrar á opnum fundi Barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar FH skorar á bæjaryfirvöld í Hafnarfirði og aðalstjórn félagsins að bæta úr aðstöðu til knattspyrnuæfinga og -keppni í Kaplakrika nú þegar. Samkvæmt skýrslu íþróttafulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá því í maí 2017 er aðstaða til knattspyrnuæfinga í Kaplakrika löngu sprungin. Hafnarfjarðarbær hefur aftur á móti ekki gripið til neinna aðgerða til að bregðast við þeim vanda sem lýst er í skýrslunni. Foreldrar þeirra barna sem æfa knattspyrnu hjá FH greiða nú þegar með beinum hætti fyrir aðstöðu í Kaplakrika með fordæmalausum leigusamningi um afnot af knatthúsum í Kaplakrika, rúmar 25 milljónir króna á undanförnum 3 árum. Foreldrar þeirra barna sem æfa knattspyrnu hjá FH hafa á undanförnum árum sýnt þolinmæði og langlundargeð, enda haft væntingar um að úrbætur séu innan seilingar. Nú er þolinmæðin hinsvegar á þrotum og það er skýlaus krafa okkar að þau börn sem stunda knattspyrnu undir merkjum FH fái sömu möguleika og tækifæri til að æfa og keppa og börn í öðrum íþróttagreinum í Hafnarfirði.