Nú þegar kosningar til sveitarstjórnar eru handan við hornið er áhugavert að hlusta á verðandi bæjarfulltrúa ræða um íþróttamál og þá aðallega aðstöðu til knattspyrnuiðkunar hér í Hafnarfirði. Við FH-ingar eins og vonandi aðrir hér í sveitarfélaginu gerum okkur fulla grein fyrir því að mörgu er að hyggja í stóru sveitarfélagi og fjármagn til framkvæmda er af skornum skammti. Stjórnendur félagsins hafa mikla reynslu á öllum sviðum þjóðlífsins og gera sér fulla grein fyrir nauðsyn og þörf til framkvæmda á mörgum sviðum í ört vaxandi bæjarfélagi og rekstrar hinna ýmsu málaflokka. Við höfum einnig skoðað og metið hvernig þörfin hefur vaxið og raunar sprungið út varðandi allan þann fjölda barna og unglinga sem hafa valið að æfa og keppa í knattspyrnu á vegum félagsins. Þörfin fyrir aðstöðu þessara barna og unglinga hefur bæði verið skilgreind hjá ÍBH, þar sem úrbætur vegna þessa eru efst á forgangslista íþróttahreyfingarinnar í Hafnarfirði og einnig hefur íþróttafulltrúinn í Hafnarfirði skilað þarfagreiningu til bæjaryfirvalda í Hafnarfirði þar sem núverandi aðstaða í Kaplakrika fær einfaldlega vel rúmlega falleinkunn. Aðstaða lang stærstu íþróttadeildar í Hafnarfirði fær falleinkunn, yfir 1000 börn og unglingar hafa valið að stunda þessa íþrótt í Kaplakrika en við sem félag getum ekki boðið upp á aðstæður, langtum verri en öll önnur íþróttafélög á Íslandi hafa fram að færa. Það að hafa rekið gæða íþróttastarf af myndarskap í e-a áratugi, barna og unglingastarfið blómstrað, þjálfun til mikillar fyrirmyndar, fjöldi unglinga sem ganga fram veginn hraust á sál og líkama, fjöldi landsliðs- og atvinnumanna, allt þetta hefur vitanlega aukið ásókn og um leið þörfina fyrir aðstöðu en hvað?

Stjórnendur Fimleikafélagsins hafa nú um sex ára bil reynt að fá yfirvöld í Hafnarfirði til að skilja vandamálið, við höfum kynnt þetta eftir bestu getu, átt marga fundi, fjöldi formlegra erinda og haldið margar kynningar. Við teljum að allar okkar tillögur séu eins hagkvæmar og hugsast getur, öllum kostnaði haldið í lágmarki. Hjá okkur er þekkingin og reynslan bæði í uppbyggingu og rekstri slíkra mannvirkja, mannvirki sem þessi þurfa að vera ódýr í byggingu og rekstri við þurfum aðeins skjólið.

Öll umræða um FH og Hauka í þessu sambandi er e-ð sem skýrsla íþróttafulltrúans í Hafnarfirði tekur vel á, þörfin er rúmlega fimmfalt meiri í Kaplakrika en á Ásvöllum. Til að fullnægja þörfinni á Ásvöllum skv. skýrslu íþróttafulltrúans þarf að byggja knatthús þar sem er á stærð við knatthúsið Risann í Kaplakrika. Félögin FH og Haukar hafa í gegnum árin sett fram sínar áherslur og fylgt þeim eftir, Ásvellir og Kaplakriki eru í dag eins og félögin hafa óskað, Kaplakriki reyndar með mannvirki sem félagið sjálft hefur byggt og rekið. Framtíðarsýn félaganna í knattspyrnu hefur verið mjög mismunandi og ljóst ef árangur félaganna, jafnt hjá ungum sem öldnum, er skoðaður hvar þekking og gæði hafa verið í fyrirrúmi.

Fimleikafélag Hafnarfjarðar óskar einfaldlega eftir að stærsta íþróttadeild í Hafnarfirði getið eins og aðrar íþróttadeildir og félög í Hafnarfirði og víðar boðið upp á sómasamlega aðstöðu fyrir þau börn og unglinga sem til okkar sækja. Kröfur okkar hafa verið sanngjarnar í samræmi við samþykktir ÍBH og í takt við þarfagreiningu íþróttafulltrúans í Hafnafiði. Ósk okkar til nýkjörinna bæjarfulltrúa í Hafnarfirði og verðandi stjórnenda bæjarinns til næstu fjögurra ára er einföld, gangið strax til samninga við Fimleikafélagið á hagkvæmum og sanngjörnum nótum, börnum og unglingum í Hafnarfirði til heilla.