Árið 1989 fór ég á minn fyrsta leik með pabba. Systir mín kom með sem er ótrúlegt. Pabbi var bæði pirraður eftir leik, líklega vegna úrslitanna gegn Fylki en væntanlega hefur systir mín verið búin að gera hann brjálaðan með kjánalegur spurningum.

Sumt breytist aldrei.

Ári seinna, 8 ára fékk ég áhuga á íþróttum. Fram að því höfðu He-man og Örn Árna sem afi átt hug minn allan. My guilty pleasure var svo Mæja býfluga. Gleymi því aldrei þegar hún fór inn í vespubúið. Það var hættulegur leikur.
Með áhuga mínum á íþróttum varð ég forvitinn. Spurði einhverntíma hvort Haukar væru ekki með handboltalið. Pabbi sagði mér jú að þeir væru með Petr Baumruk, væru reyndar í 1.deild. Mamma skaut því að mér að Haukarnir gætu ekkert í íþróttum. Og hefðu aldrei gert. Líklega ennþá pirruð yfir því þegar einhver drullusokkurinn hellti yfir hana bjór þegar pabbi og Ómar Karls skiptu yfir í FH. Það er líklega með því besta sem pabbi hefur gert fyrir mig.

En minnistæðasta af þessum fyrstu árum mínum sem áhugamaður um íþróttir voru leikirnir gegn KR. Pabbi fór með mig í Frostaskjólið á leikina gegn KR. Þar sá ég ástríðufulla aðdáendur KR sem voru orðnir vel pirraðir á því að KR ynni ekki titla. Minntu ögn á Liverpoolmenn. FH vann alltaf þessa leiki í minningunni. Höddi Magg og Jón Erling frammi, Stebbi í markinu og Petr Mrazek. Þvílíkir leikmenn. Óli K fyrst á kantinu og svo í bakverðinum. Andri Marteins var líka í uppáhaldi. Góðar minningar.

Þetta hefur aðeins breyst. Við höfum átt í basli á KR-vellinum. KR er líka byrjað að vinna titla. FH líka. Sem betur fer oftar en KR.

Ólafur er að byggja upp nýtt lið í FH. Margir nýjir leikmenn hafa vakið athygli. Gummi K og Færeyingurinn eru spennandi. Gaman að sjá ungu strákana líka fá mikinn tíma til að spila, sérstaklega þar sem þeir eru að standa sig. Markan og minn maður, Jónatan Ingi verið frábærir á köflum. Ungir menn mega aldrei gleyma að sénsarnir koma. Fyrst á æfingum og í 2.flokks leikjum. Þegar tækifærið kemur svo í leik með meistaraflokki þarf að nýta það. Hvort sem um er að ræða 5 mínútur, 30 mínútur eða heilan leik.

Síðustu þrír leikir hafa bara gefið okkur 3 stig, allt jafntefli. Ég get ekki beðið eftir að liðið nái einum frábærum leik þar sem allt gengur upp. Vonandi verður sá leikur gegn KR á morgun.

Það er nefninlega mikilvægt að allir nýju leikmennirnir í FH átti sig á því að það er bara eitt sem telur í Kaplakrika. Það er að vinna titla.

Sumt breytist aldrei 😉

Bestu kveðjur úr sólinni,
Jón Páll og Queen Pamela.