Lads, it‘s Víkingur Reykjavík.

Það eru Fossvogspiltar sem heimsækja Kaplakrikavöll í kvöld kl. 19:15 og freista þess að pressa FH-liðið hátt uppi á velli eins og nú er komið í tísku. Víkingarnir hafa verið upp og niður það sem af er sumri, en fyrir mót höfðu flestir knattspyrnuspekúlantar spáð liðinu niður í Inkasso deildina. Fyrir leik kvöldsins sitja Víkingar þægilegir í 8. sæti mótsins með 9 stig eftir 8 leiki og hafa ekki yfir miklu að kvarta. Þeir hafa þó tapað síðustu þremur leikjum og verða því vafalaust bandbrjálaðir á vellinum í kvöld.

Fimleikafélagið þarf að fara að skila sigrum í hús. Liðið hefur náð í 5 stig af 12 mögulegum í Krikanum á tímabilinu. Þar á meðal eru fjögur töpuð stig gegn báðum nýliðum deildarinnar. Það er ekki nógu gott og í kvöld er tækifærið til þess að binda enda á þessa jafnteflahrinu sem við höfum verið í og loka leiknum. Prógrammið framundan er líka þannig að við megum ekki við því að tapa fleiri stigum gegn liðum sem við ættum að leggja af velli, ef allt er eðlilegt. Næstu leikir eru Valur (Ú), Stjarnan (H) og Grindavík (H). Þunga prógrammið.

Síðasti leikur FH-liðsins var ótrúlegur á margan hátt en maður verður að virða stigið í Frostaskjóli. Atli Guðnason hélt í þá hefð að skora í Vesturbænum en brá út af vana sínum og tók hlaup á nærstöngina í markinu. Vel gert það. Þar á undan hafði Steven nokkur Lennon skorað mark tímabilsins af tæpum 40 metrum. „The King of 40 metres“ Friðrik Dór Jónsson hefur víst verið með Lennon á aukaæfingum frá því vor og gaman er að sjá afrakstur þeirra skila sér í skoruðum mörkum.

Síðustu tveir leikir á milli Víkings og FH í Krikanum hafa endað með 2-2 jafntefli. Guð forði mér frá því að leikurinn í kvöld endi eins. Þar á undan hefur FH haft gott tak á Víkingum á Kaplakrikavelli, en eina tapið á þessari öld kom í VISA-bikarnum árið 2006 þegar Víkingar sigriðu 1-2 með tveimur góðum mörkum frá undabakverðinum Höskuldi Eiríkssyni. Að sjálfsögðu signaði FH þennan geggjaða leikmann stuttu síðar sem spilaði við góðan orðstír í Kaplakrika þar til Ashley nokkur Young batt enda á feril hans með frábærri spilamennsku og miklum hraðabreytingum þegar Fimleikafélagið spilaði við Aston Villa. Meðfylgjandi er mynd af þeim kumpánum Hösky og Ashley.

Við eigum þjálfara Víkinga, Loga Ólafssyni, mikið að þakka en hann, ásamt öðrum, lögðu grunninn að þeirri miklu velgengi sem FH-liðið hefur átt að fagna frá aldamótum. Logi stýrði Fimleikafélaginu til sigurs í 1. deildinni árið 2000 og stóð sig með prýði árið eftir í deild hinna bestu. Við tökum vel á móti Loga og félögum í kvöld.

Nú er nóg komið af jafnteflum. Mætum í kvöld og styðjum FH-liðið til sigurs og áframhaldandi velgengi í allt sumar. Þetta er allt rétt að byrja.

Áfram FH!

Árni Grétar Finnsson