Enn brunar FH lestin og næst eru það KR-ingar sem taka á móti okkur á Alvogenvelli kl. 19:15 á sunnudagskvöldið. Það þarf ekki að fletta í gegnum margar knattspyrnubækur eftir Víði Sigurðsson til að átta sig á því að hér er um stórleik að ræða, eins og alltaf þegar þessi tvö lið mætast.

Rétt eins og FH hefur Vesturbæjarliðið oft spilað betur en það sem af er tímabili. Liðið situr í 7. sæti deildarinnar með níu stig eftir sjö leiki. Í síðasta leik lá liðið kylliflatt fyrir sprækum Eyjamönnum, 2-0, og því er ljóst að KR-ingar mæta til leiks á sunnudagskvöld staðráðnir í að gera betur.

Fimleikafélagið hefur einnig oft náð að safna fleiri stigum í sarpinn en nú, en við sitjum í 3. sæti deildarinnar með tólf stig eftir sjö leiki. Maður hefur samt þá tilfinningu að FH liðið eigi mikið inni og spilamennskan muni einungis fara batnandi þegar líður á mótið. Fimleikafélagið hefur nú gert þrjú grátleg jafntefli í röð og og því verður ekki fallist á neitt annað en sigur á sunnudag.

Sú var tíðin að ferð í Frostaskjól jafngilti þremur gulltryggðum punktum fyrir Fimleikafélagið en þeir tímar virðast liðnir. Ef marka má upplýsingar á vef KSÍ þá tapaði FH ekki í Frostaskjóli á árunum 2004-2010. Upphafið á þessari taplausu hrinu má að sjálfsögðu rekja til 7-0 sigurs FH á KR á Kaplakrikavelli árið 2003. Ég nýti öll tækifæri til að rifja þann leik upp. KR-ingar hafa varið vígi sitt vel gegn FH undanfarin ár, og raunar í Kaplakrika líka. Síðasti sigur í Fimleikafélagsins í Vesturbænum kom í opnunarleik Íslandsmótsins árið 2015 þegar FH sigraði 1-3 eftir að hafa lent undir. Ég held að við FH-ingar getum öll verið sammála um að það er allt of langt liðið frá þessum síðasta sigurleik.

Með sigri á sunnudag og hagfelldum úrslitum í leikjum liðanna fyrir ofan okkur gæti FH tyllt sér á topp deildarinnar. Fyrir liggur að FH mun leika á Robbie Crawford og Brands Olsen sem báðir taka út leikbann. Þetta er mikil blóðtaka fyrir FH enda hafa þeir báðir verið fastamenn sem af er tímabili. Fimleikafélagið hefur sem betur fer yfir breiðum leikmannahópi að ræða og það kemur maður í manns stað.

Það eru mýmargar tengingar á milli þessara stórvelda og ein er í gegnum þjálfara FH, Ólaf Helga Kristjánsson. Ólafur er auðvitað uppalinn FH-ingur en söðlaði um sumarið 1996 og skipti yfir í KR. Þar lék hann rúma 30 leiki fyrir félagið áður en hann elti drauma sína til Danmerkur. Þá lék hinn öflugi miðjumaður KR-inga, Finnur Orri Margeirsson, í Krikanum við góðan orðstír í heila tvo mánuði undir lok ársins 2014 áður en hann fór í víking til Noregs. Þá er markmannsþjálfari KR-inga, hinn síungi Kristján Finnbogason, okkur í FH góðkunnugur en hann lék í nokkur ár í Kaplakrika og stóð sig með mikilli prýði.

Fyrir þá sem vilja hita sig vel upp fyrir leikinn er óhætt að mæla með spurningakeppni FH-Radíó í umsjá þeirra Doddason-bræðra. Í þættinum fengu þeir Davíð Þór Viðarsson fyrirliða FH og Aron Bjarka Jósepsson leikmann KR til þess að taka þátt í léttri spurningakeppni fyrir leikinn á sunnudag. Sjá hér: https://www.spreaker.com/…/7…/spurningakeppni-fh-radio-fh-kr

Gamla myndin í dag birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 30. maí 2005. Ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa snilld.

FH-liðið hefur alla burði til þess að gera frábært mót í sumar en það hefst ekki án stuðnings stuðningsmanna félagsins. Ég hvet ykkur því öll til þess að mæta tímanlega á leikinn og hvetja Fimleikafélagið áfram.

Áfram FH!