Fyrsti heimaleikur FH í Olísdeildinni fer fram seinna í dag þegar strákarnir úr Safamýrinni mæta í heimsókn. Þeir byrjuðu deildina á flottu jafntefli við Val og virðast koma talsvert betur undan sumri en spekúlantar spáðu, þó það sé auðvitað fáránlegt að reyna að dæma um slíkt eftir einn leik.

Mótherjarnir – Fram.

Í fyrra spiluðum við Framara í þrígang. Í deildinni slátruðu okkar menn Frömurum tvisvar, skoruðu 82 mörk á þá í tveimur leikjum. Í átta liða úrslitum bikarsins hittu Framarar hins vegar á frábæran leik og meira um hann verður ekki skrifað hér. Þeir enduðu í tíunda sæti deildarinnar, voru í bullandi fallbaráttu en héldu sér uppi.

Framarar misstu aðeins einn leikmann í sumar, en sá maður til að missa. Arnar Birkir Hálfdánsson fór í atvinnumennsku, eftir að hafa verið langbesti leikmaður Fram síðustu ár. Það vill stundum gerast að þegar einn leikmaður er jafn áberandi öflugastur og hann var hjá þeim, þá fara aðrir leikmenn að treysta um of á gæðamanninn. Maður sá það þegar mikið á reyndi hjá Frömurum að aðrir leikmenn virtust ekki treysta sér til að taka af skarið og verður áhugavert að sjá hvort einhverjir útileikmanna Fram vaxi svolítið í vetur, við það að vera ekki lengur í skugga Arnars.

Þeir hafa í rammanum lang efnilegasta markmann Íslands og mögulega þó víðar væri leitað. Viktor Gísli Hallgrímsson getur unnið leiki einn síns liðs, en það er spurning hversu hollt það er fyrir ungan leikmann að vera ekki með neina samkeppni um stöðu sína. Þannig var það síðustu tvö ár en nú er breyting á, Fram náði í hinn geðþekka Lárus Helga Ólafsson og er því komin smá samkeppni um markmannsstöðuna. Satt best að segja á ég von á að hinn síðarnefndi byrji leikinn á eftir, en hann kom virkilega öflugur inn á í leiknum gegn Val.

Einnig hafa Framarar bætt við sig Bjarka Lárussyni, Ægi Hrafn Jónssyni, Svavari Kára Grétarssyni og Aroni Gauta Óskarssyni. Spurning hvort þessir menn geta fyllt áðurnefnt skarð sem Arnar skildi eftir sig.

Arnar Freyr mætir uppeldisfélaginu í Krikanum í dag / Mynd: Jói Long

Okkar menn – FH

Það þarf væntanlega ekki að segja neinum FH-ing hvernig síðasti leikur fór, en strákarnir okkar röltu niður að Ástjörn á miðvikudag og sóttu eitt stig. Það gerðu þeir þrátt fyrir að spila ekkert glimrandi vel og voru á tímabili fimm mörkum undir, en stórleikur Jóa B tryggði stigið að lokum.

Það má bæta margt í leik liðsins en sterkt var að ná í stigið, nú er að ná í fyrsta sigurinn. Markmennirnir okkar munu vilja svara fyrir slakan leik í fyrstu umferð og ég á erfitt með að trúa að Einar Rafn verði með undir fimm mörk tvo leiki í röð. Ég get líka ekki beðið eftir að sjá hvernig Jói og Ási koma inn í þennan leik, en þeir voru okkar langbestu menn á Ásvöllum.

Jóhann Birgir fór á kostum á Ásvöllum í vikunni / Mynd: Jói Long

Spá? Þetta er einfaldlega skyldu sigur. Framarar eru góðir en okkar menn eru einfaldlega betri. Það sem það verður gaman að setjast á pallana í Kaplakrika á ný og fylgjast með þeim svarthvítu leika listir sínar! Það er ekkert skemmtilegra á sunnudegi, svo við skulum fjölmenna og hvetja þá frá upphafi til enda!

VIÐ ERUM FH!

– Ingimar Bjarni