Guðni Eiríksson var í dag ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna hjá FH. Guðni er þrautreyndur þjálfari og hefur starfað lengi fyrir félagið. Hann var aðstoðarþjálfari í meistaraflokki kvenna árin 2015 og 2016. Sumarið 2015 vann liðið sér síðast rétt til þess að spila í úrvalsdeildinni og spilaði svo í Pepsí deildinni 2016. Árið 2015 var hann einnig þjálfari 2. flokks kvenna og gerði liðið að Íslandsmeisturum.

Guðni er spenntur fyrir verkefninu sem er framundan. „Ég þekki vel til meistaraflokks kvenna hjá FH eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari þar í tvö ár og veit að þar er góður efniviður til staðar. Við stefnum að sjálfsögðu að því að fara beint aftur upp í Pepsí deildina og ég hef fulla trú á því að verðum með mannskap næsta sumar sem gerir tilkall að Pepsí deildar sæti. Ég er fullur tilhlökkunar fyrir verkefninu en núna fer á fullt undirbúningur fyrir næsta keppnistímabil,“ sagði Guðni Eiríksson, nýráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna.

Árni Rúnar Þorvaldsson, formaður Kvennaráðs FH, er líka ánægur með þessa niðurstöðu. „Mér líst mjög vel á að fá Guðna inn í þetta starf. Við þekkjum vel til hans frá því hann var aðstoðarþjálfari í meistaraflokki og þjálfari 2. flokks kvenna. Þess vegna bindum við miklar vonir hann og hans störf og höfum trú á því hann geti hjálpað okkar unga og efnilega liði við að komast aftur í deild þeirra bestu en þangað stefnum við að sjálfsögðu strax aftur,“ sagði Árni Rúnar að lokum.