FH eSports og Jóhann Ólafur Jóhannsson hafa gert með sér samning um að hann æfi og keppi í fótboltatölvuleiknum FIFA 20 undir merki FH. Í apríl vann Jóhann eða Jolli776 fyrsta Íslandsmeistaramótið í FIFA sem haldið var á vegum Rafíþróttasamtaka Íslands (RÍSÍ). Sýnt var frá undanúrslitum og úrslitum mótsins í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV. Áhorfendur gátu fylgst með og stutt sína keppendur í sjónvarpssal.

„Jóhann er ekki bara góður FIFA-spilari heldur er hann líka fínn knattspyrnumaður sem leikur með okkar nágrannafélagi, Knattspyrnufélagi Garðabæjar (KFG). Hann hefur rétt hugarfar íþróttamannsins, er metnaðargjarn og vill ná góðum árangri í FIFA leiknum. Við viljum veita honum tækifæri að æfa og keppa í leiknum við bestu aðstæður í Kaplakrika og munum styðja hann svo hann verði enn betri FIFA-spilari. Framundan eru spennandi keppnir og mót í leiknum og við væntum mikils af Jóhanni á þeim vettvangi”, segir Hallsteinn hjá FH eSports.

Jóhann segist spenntur fyrir þessu samstarfi við FH_eSports: „FH er leiðandi íþróttafélag hér á landi og gaman fyrir mig að fá að spila FIFA leikinn í slíku umhverfi. FH eSports ætlar að byggja upp öflugt rafíþróttastarf í félaginu og ég er þakklátur fyrir að vera hluti af því ferðalagi”.