Óhætt er að segja að FH-liðin hafi farið á kostum á fjölum Kaplakrika í gær. Tvö hörkuverkefni voru á dagskrá, sem okkar fólk afgreiddi af mikilli snilld. Tveir 11 marka sigrar, fjögur mikilvæg stig í húsi – allt eins og það á að vera!

Britney er óstöðvandi þegar hún hittir á daginn sinn / Mynd: Brynja T.

Stelpurnar okkar voru fyrri til að hefja leik, en þær mættu liði Fjölnis sem hefur sýnt að það getur valdið ýmsum vandræðum. FH-liðið gaf hins vegar engin færi á sér og stýrði umferðinni allt frá fyrstu mínútu. Jafnræði var með liðunum fyrstu 10 mínúturnar eða svo, en eftir það sprengdu FH-ingar Fjölnisliðið af sér. Á 6 mínútna kafla breyttist staðan úr 4-4 í 12-5, FH í vil, og eftir þetta horfðu stelpurnar aldrei til baka.

Þær leyfðu sér enga værukærð, enda sýndi Fjölnisliðið í síðasta leik að það getur komið til baka gegn sterkum liðum. 9 marka munur var á liðunum í hálfleik (17-8) og eftir hlé sigldu stelpurnar sigrinum þægilega í hús. Töluvert var um tæknifeila, en það kom ekki að sök – lokatölur 31-20, FH í vil.

Björg Bergsveinsdóttir kom inn af krafti í gær, fiskaði tvö víti og skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu úr öðru þeirra / Mynd: Brynja T.

Britney Cots var markahæst FH-inga að þessu sinni með 8 mörk, en fast á hæla hennar komu Fanney Þóra Þórsdóttir með 7 mörk og Ragnheiður Tómasdóttir með 6. Í markinu varði Dröfn Haraldsdóttir afar vel að venju, eða 15 bolta samanlagt, og þá tók Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 3 bolta – þar af eitt víti.

Í leiknum náði okkar allra besta Birna Íris Helgadóttir þeim merka áfanga, að leika sinn 400. leik fyrir meistaraflokk kvenna í FH. Náði hún ekki að skora í leiknum, en stóð sig að venju með prýði í vörninni. Óskum við henni að sjálfsögðu innilega til hamingju með áfangann, og með þökk fyrir ómetanlegt framlag til handboltans í FH!

Frábær sigur hjá stelpunum, sem halda því þriggja stiga forystu á Selfyssinga, sem einnig unnu í gær. Hafa FH-stelpur nú unnið sigur í síðustu 5 deildarleikjum, og eru því á gríðarmiklu skriði. Hið besta mál, því alltaf styttist í að mótið klárist. En áfram heldur baráttan! Næsti leikur stelpnanna er í Kórnum næstkomandi sunnudag, en þær mæta þar liði HK U.

Mörk FH: Britney Cots 8, Fanney Þóra Þórsdóttir 7, Ragnheiður Tómasdóttir 6, Emilía Ósk Steinarsdóttir 5, Aníta Theodórsdóttir 3, Andrea Valdimarsdóttir 1, Björg Bergsveinsdóttir 1.
Varin skot: Dröfn Haraldsdóttir 15, Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 3/1.

Leikurinn var sýndur í beinni útsendingu á YouTube, og má nálgast hann í tenglinum hér að neðan:

https://www.youtube.com/watch?v=ky481OsiTNE

Þá var röðin komin að strákunum. Þeir tóku sig til og völtuðu yfir gott lið ÍR, en fyrir umferðina voru liðin jöfn að stigum í 4. og 5. sæti deildarinnar.

Allt gekk upp sem strákarnir gerðu, frá fyrstu mínútu og til þeirrar síðustu. Þessi fullyrðing má hins vegar ekki skiljast þannig, að einhver heppni hafi þar spilað rullu. Nei. FH-liðið var einfaldlega á fullu.

Einar Rafn. Pósturinn? Var allavega allur pakkinn í gær! / Mynd: Jói Long

Þetta var allt svo gott. Öll holningin og heildarbragurinn. Ákefðin á báðum endum vallarins, flotið á boltanum, ákvarðanatakan, markvarslan. Þetta var með því allra besta, sem FH-liðið hefur boðið upp á í vetur. Strákarnir virkuðu einfaldlega óstöðvandi, geisluðu af sjálfstrausti og baráttu. Og það kann ekki góðri lukku að stýra fyrir andstæðinginn.

9 marka munur var á liðunum í hálfleik, sem (ótrúlegt en satt) er minna en það sem var í fyrri leik liðanna í vetur, þegar strákarnir leiddu með 11 mörkum að loknum fyrstu 30. Í það skiptið misstu okkar menn dampinn örlítið þegar leið á, en ekki í gærkvöldi. Mestur varð munurinn á liðunum 13 mörk, í stöðunni 38-25, en ÍR-ingar náðu að rétta sinn hlut örlítið áður en yfir lauk. Lokatölur 39-28, FH í vil.

Einar Rafn Eiðsson og Ásbjörn Friðriksson voru markahæstir okkar manna í leiknum með 7 mörk hver. Einar Rafn var maður leiksins, enda stórkostlegur í sókninni með 7 stoðsendingar til viðbótar við þessi 7 mörk. Í markinu átti Phil Döhler svo enn einn stórleikinn, en hann varði 15 skot.

Með vaxtarverki – Jón Bjarni verður betri með hverjum leik sem líður! / Mynd: Jói Long

Annars stóð það upp úr, hvað allir voru góðir. Hver sá sem kom inn, var tilbúinn. Ég gæti gengið á línuna, nefnt hvern og einn. Það yrði hins vegar ofhlaðin langloka – þið sem voruð á vellinum vitið hvort eð er, hvernig landið lá. Að því sögðu: Við verðum að tala um Jón Bjarna Ólafsson.

Hvílíkar framfarir. Hvort sem það er í vörn eða sókn. Jón Bjarni var besti varnarmaður vallarins, skv. HB Statz, og kemur það engum á óvart sem leikinn sá. Hann hefur alltaf verið fastur fyrir, en nú getur hann brotið með meiri snyrtimennsku – ómetanlegur eiginleiki í fari varnarmanns. Á hinum endanum leysti hann svo hlutverk línumanns með sóma. Það má ekki gleymast, að upp yngri flokkana var hann skytta – sannkölluð sleggja. Það krefst mikillar vinnu, að aðlaga sinn leik og að ná framförum, og hana hefur hann lagt inn. Það sést. Áfram svona!

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 7, Einar Rafn Eiðsson 7, Birgir Már Birgisson 5, Leonharð Þorgeir Harðarson 4, Jóhann Birgir Ingvarsson 4, Ágúst Birgisson 3, Einar Örn Sindrason 3, Jakob Martin Ásgeirsson 2, Jón Bjarni Ólafsson 2, Arnar Freyr Ársælsson 1, Gísli Jörgen Gíslason 1.
Varin skot: Phil Döhler 15, Birkir Fannar Bragason 2.

Næsti leikur strákanna er einnig á sunnudag, er einnig í Kórnum og er (einnig) gegn HK. Útivallartvíhöfði, það held ég nú! Nánar um leikina þegar nær dregur. Þangað til, eigið góða viku.

Við erum FH!
– Árni Freyr