Það er engum blöðum um það að fletta, að á morgun er boðið upp á leik af dýrari gerðinni í Kaplakrika. Ríkjandi Íslandsmeistarar Selfoss mæta í heimsókn í Krikann, en þeir líkt og við vilja berjast meðal þeirra allra bestu. Gamlir kunningjar eru nú klæddir í vínrautt, og ætla sér eflaust að stela stigum frá Fimleikafélaginu. Þá fengu bæði lið blautar tuskur framan í sig í síðustu umferð, sem þau vilja gjarnan bæta fyrir. Mikið er undir, því baráttan í deildinni hefur sjaldan verið jafnari en nú.

Selfyssingar, undir stjórn Halldórs Jóhanns Sigfússonar, sitja sem stendur í 5. sæti Olísdeildarinnar. 16 stig eru uppskeran úr 14 leikjum, en það eru 3 færri stig heldur en FH-ingar hafa nælt sér í. Að Selfyssingar yrðu í baráttunni í efri hlutanum var ávallt vitað. Þeir styrktu sig skynsamlega í sumar, sóttu góðan markvörð í Vilius Rasimas og fengu til sín Guðmund Hólmar Helgason, sem spilaði lykilhlutverk á báðum endum vallarins framan af móti. Þá sneri mjólkurbíllinn Ragnar Jóhannsson, sem er okkur FH-ingur að góðu kunnur, aftur heim úr atvinnumennsku í Þýskalandi. Fyrir var sterkur kjarni Selfyssinga, leikmenn sem hafa gert þetta allt áður í bland við unga stráka sem komið hafa upp og sannað sig.

Gestir okkar urðu hins vegar fyrir miklu áfalli nýlega, þegar Guðmundur Hólmar sleit hásin. Hann verður því frá út tímabilið sem er vont í ljósi þess, að hann hafði verið helsta driffjöður Sunnlendinga fram að því. Aðrir hafa hins vegar stigið upp, ekki síst Hergeir Grímsson, sem hefur leikið prýðilega á miðju Selfyssinga á leiktíðinni. Þetta er hæfileikaríkt lið, vel þjálfað og fullt af karakter. Slíkt býður alltaf upp á erfiðar viðureignir. Ekki síst í ljósi þess að þeir vilja án nokkurs vafa koma til baka eftir sárt tap í síðustu umferð, gegn Aftureldingu á heimavelli.

Benni túrbó bjargaði stigi á Seltjarnarnesi í síðustu umferð / Mynd: Jói Long

Talandi um erfiðar viðureignir. Undanfarin ár hafa leikir þessara liða nánast undantekningalaust verið æsispennandi og skemmtilegir. Fyrri leikur liðanna á þessu tímabili var það svo sannarlega, en hann unnu Selfyssingar á sínum heimavelli. Lokatölur 25-24, eftir að jafnt hafði verið í hálfleik (13-13). Í liði Selfyssinga voru þeir Guðmundur Hólmar og Hergeir markahæstir með 6 mörk, en Ásbjörn Friðriksson fór fyrir liði FH með 8 mörk. Hann hefur verið fjarri góðu gamni í undanförnum leikjum vegna meiðsla, en vonir standa til að hann gæti mætt á gólfið að nýju fljótlega.

Strákarnir okkar munu mæta ákveðnir til leiks, staðráðnir í að bæta upp fyrir glatað stig á Seltjarnarnesi síðastliðinn fimmtudag. Í þeim leik leiddu okkar menn lengst af, mest með 6 marka mun, en lið Gróttu kom sér aftur í leikinn og leiddi hann raunar með einu marki þegar skammt var til leiksloka. Benedikt Elvar Skarphéðinsson bjargaði stigi fyrir strákana á lokasekúndum leiksins. Svo sannarlega skárra en ekkert úr því sem komið var, en svekkjandi í ljósi þess að okkar menn hefðu átt að drepa leikinn þegar færi gafst.

Sigur í stórleik morgundagsins yrði gulls ígildi. FH-ingar eru sem stendur í 2. sæti deildarinnar, og með því að leggja lið í beinni samkeppni um efstu sætin getum við styrkt stöðu okkar verulega. Bæði þegar kemur að því að komast nær Haukunum, sem sitja á toppi deildarinnar með fjögurra stiga forskot, en eins til að halda bilinu á liðin fyrir neðan. Við viljum heimaleikjarétt í úrslitakeppninni, og ætlum okkur að sækja hann.

Miðasala á leik morgundagsins fer fram á Stubb-appinu. Fjölmennum í Krikann á morgun og hjálpum strákunum okkar að vinna mikilvægan sigur í toppbaráttunni!

Krikinn. 19:40. Koma svo.

Við erum FH!