Nokkur umræða hefur átt sér stað vegna greinar (viðtals) sem formaður Hauka, Samúel Guðmundsson, skrifar í glæsilegt afmælisblað Hauka sem gefið var út nú nýlega í tilefni 90 ára afmælis þess ágæta félags en fyrirsögn greinar hans er að mínu mati óviðeigandi, raunar kolröng, og er svona „pabbi minn er sterkari en pabbi þinn“, barnalegt.

Fimleikafélag Hafnarfjarðar er eitt af stærri félögum á Íslandi en hvar í einhverri tilbúinni röð er algjört aukaatriði og í raun ómögulegt að segja og þá til hvers. Mælikvarði á stærð félags getur verið margvíslegur, iðkendafjöldi, fjöldi félagsmanna, fjárhagsleg umsvið, eignaleg umsvif o.s.frv., aðalatriðið er gæði íþrótta- og félagsstarfsins og þar hafa Haukar staðið sig vel að mörgu leyti og á það á formaður Hauka að leggja áherslu.

Forsendurnar sem Samúel er að nota og segir frá í greininni „Við vorum mældir nýlega sem stærsta félagið í Hafnarfirði“ og einnig „En á síðasta ári kom þarna mæling þar sem við vorum með fleiri iðkendur en FH, það finnst mér jákvætt.“ eru iðkendatölur úr Felixkerfi ÍSÍ sem er alls engin „mæling“. Iðkendatölur í Felix eru tölur innsettar af félögunum sjálfum og alveg ljóst að fjöldi félaga ber enga virðingu fyrir því kerfi og sér sér hag í verulega ýktum iðkendatölum og það er ákkúrat það sem Haukar hafa stundað. „Mælingin“ sem Samúel vitnar í er ekkert annað en röng innsetning þeirra sjálfra á fjölda iðkenda.

Ef einhver félög í Hafnarfirði vilja endilega setja sig í einhverja röð varðandi stærð síns félags miðað við nokkuð réttann iðkendafjölda þá hefur ÍBH og Hafnarfjarðarbær á ári hverju í samstarfi við Rio Tinto úthlutað styrkjum til hafnfirskra íþróttafélaga sem miðast við fjölda iðkenda 18 ára og yngri. Niðurstaða síðustu úthlutunar („stærstu þrjú“) sem unnin er af íþróttafulltrúa Hafnarfjarðarbæjar og framkvæmdastjóra ÍBH á grunni ákveðinna reglna er einfaldlega eftirfarandi:

Fimleikafélag Hafnarfjarðar        1.702    iðkendur

Knattspyrnufélagið Haukar         1.053    iðkendur

Fimleikafélagið Björk                       773     iðkendur

Þess má geta að iðkendur í fótbolta hjá FH (1.064) eru fleiri en heildarfjöldi iðkenda hjá Haukum.

Mér er þverrt um geð að þurfa að setja ofnagreint á blað en „hafa ber það sem sannara reynist“ á vel við hér, ósannindi og skáldskapur á ekki að líðast í íþróttahreyfingunni frekar en annars staðar.

Fimleikafélag Hafnarfjarðar

Viðar Halldórsson, formaður.