3. fl. kv. Sigur í undanúrslitum gegn Haukum

3. fl. kv. Sigur í undanúrslitum gegn Haukum

Vindurinn hafði töluverð áhrif á spilamennsku liðanna sem þó reyndu hvað þau gátu til að spila fótbolta. FH komst yfir í leiknum eftir aðeins eina og hálfa mínútu og var þar að verki Halla Marinósdóttir. Halla fékk stungusendingu inn fyrir vörn Hauka og setti boltann snyrtilega fram hjá markmanninnum. Skömmu síðar kom upp svipuð staða þegar Valgerður Björnsdóttir sendi frábæra sendingu á milli hafsent og bakvarðar á Ölmu Gythu sem át upp sendinguna, kom sér í góða stöðu og líkt og skólasystir hennar, setti Alma boltann fallega framhjá markmanninum. Þess má geta að Alma hefur verið iðinn við kolana undanförnum leikjum og skorað mikið af mörkum fyri FH-liðið. Þegar þarna var komið sögu var staðan orðin álitleg fyrir FH, tveggja marka forysta og FH með talsverða yfirburði.
Haukar sem hafa á að skipa góðu liði ætluðu sér þó ekki að gefa neitt eftir, síst gegn FH. Þær unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn og fóru að sækja meira. Vörn FH sá þó vel við þeim og segja má án teljandi vandræða. Haukar fengu hinsvegar dæmda óbeina aukaspyrnu á markteig sem þær nýttu þrátt fyri góða tilburði í varnarvegg FH. Staðan í hálfleik 1-2.

Í síðari hálfleik var nokkuð jafnræði með liðunum og fór leikurinn fram að mestu á miðju vallarins. Lítið var um færi og hvorugu liðinu tókst að bæta við marki. Lokaniðurstaða 1-2 sigur FH.

Sigurinn í gær var hinn umtalaði baráttsigur. FH-stelpurnar, sem oft hafa spilað betur, kláruðu verkefnið við erfiðar aðstæður gegn erfiðum andstæðing. Um leið og ég þakka Haukum fyrir leikinn vil ég óska FH-stelpun til hamingju með að vera komnar, verðskuldað, í úrslit í Faxaflóamótinu.

Úrslitaleikurinn mun fara fram föstudaginn 4. maí næstkomandi kl. 18:00. Leikið verður á hlutlausum velli gegn Blikum sem unnu Selfoss 5-1 einnig í gærdag.

Aðrar fréttir