3.flokkur kvenna bikarmeistari

3.flokkur kvenna bikarmeistari

FH-liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og leiddu í hálfleik með þremur mörkum gegn engu en Aldís Klara Lúðvíksdóttir, Alma Gythe Huntington Williams og Kristín Guðmundsdóttir skoruðu mörk FH stúlkna í hálfleiknum.

Valsstúlkur neituðu þó að gefast upp og eftir 16 mínútur höfðu þær rauðklæddu minnkað muninn í eitt mark með því að skora tvö góð mörk. Leikurinn var opin og fjölmargar góðar sóknir sáust og bæði liðin spiluðu góðan fótbolta. Fyrirliðinn Sigmundína Sara Þorgrímsdóttir skoraði glæsilegt mark með vinstri fæti 10.mínútum fyrir leikslok og staðan orðin nokkuð þægileg fyrir stelpunar okkar.
Eitt glæsilegasta mark Kaplakrikavallar þetta sumarið skoraði svo Aldís Klara Lúðvíksdóttir rétt fyrir leikslok. Aldís sem gjaldgeng er í 4.flokki félagsins fékk boltann við miðlínu og eins og alvöru sóknarmann sæmir setti hún stefnuna beint í átt að marki Valsmanna. Svighreyfingar hennar sem Alberto Tomba hefði verið stoltur af komu henni svo í gott skotfæri sem hún nýtti með því að þruma boltanum í Vinkil frænda og sigurinn þar með innsiglaður.

Sigmundína Sara tók svo við bikarnum í leikslok við mikinn fögnuð fjölmargra áhorfenda sem settu skemmtilegan svip sinn á leikinn.

Rétt er að geta þess að foreldrar og kvennaráð FH á mikinn heiður skilið fyrir glæsilega umgjörð í kringum leikinn. Stepunum var boðið í te og rist í morgun og á leiknum var veitingasala sem Jón Helgi Pálmason, leikmaður 6.flokks, stjórnaði af myndarbrag. Árni Guðmundsson fór hamförum á míkrafóninum og eftir leik var leikmönnum og þjálfurum beggja liða boðið í pizzuveislu í Krikanum. Stelpurnar fengu svo mikið lof frá kvennaráði eftir leik sem þær svo sannlega eiga skilið og eru þær nú í keiluhöllinni að sprengja alla skala í keilu í boði ráðsins.

Þetta hefur verið góð helgi fyrir alla FH-inga á knattspyrnuvöllum landsins og nú er bara að klára dæmið því 3.flokkur karla á leik gegn Tindastóli/Hvöt á Borgarnesvelli klukkan 17.00 á morgun mánudag og eru FH-ingar hvattir til að mæta.

Aðrar fréttir