4. flokkur kvenna í úrslit bikarsins!

4. flokkur kvenna í úrslit bikarsins!

Í kvöld léku hinar bráðefnilegu stúlkur í 4. flokki kvenna gegn ÍR í bikarkeppninni. Leikurinn var í Austurbergi, heimavelli ÍR. Markmið liðsins var einfalt: að komast í bikarúrslitaleikinn í Höllinni.


Lið FH og ÍR í 4. flokki kvenna leiddu saman hesta sína í Austurbergi í kvöld.

Leikurinn var lengi vel í járnum og það sást vel að mikið var í húfi. Liðin virkuðu hálf taugaóstyrk en náðu þrátt fyrir það að spila ágætis handbolta. Skiptust liðin á því að hafa frumkvæðið en ÍR-ingar höfðu þó eins marks forystu í hálfleik.

Í seinni hálfleik var ekki spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi. FH-stúlkur náðu snemma yfirhöndinni og voru restina af leiknum með 1-3ja marka forskot. Eitthvað virðast þær þó hafa slakað á í lokin, en þá náðu ÍR-stúlkur að minnka muninn niður í eitt mark. En lengra komust þær ekki, FH sigraði leikinn 15-14 og eru þar með komnar í úrslitaleik bikarsins sem að spilaður verður þann 28. febrúar næstkomandi.

Ljóst er að framtíð kvennahandboltans í FH er afar björt en þessi flokkur hefur í gegnum tíðina verið með þeim allra sterkustu á landinu. Við á FH.is óskum stelpunum til hamingju með árangurinn og hvetjum fólk til að mæta á úrslitaleikinn í Höllinni sem að er eins og áður sagði þann 28. febrúar, áætlaður leiktími er 13:30. Áfram FH!

Árni Freyr Helgason og Anton Ingi Leifsson

Aðrar fréttir