5.flokkur karla og 4.flokkur kvenna Íslandsmeistarar 2022

5.flokkur karla Íslandsmeistari eftir sigur á Breiðablik

5.fl.kk Íslandsmeistarar eftir 5-4 sigur a Breiðablik í Úrslitaleik á Kópavogsvelli á sunnudag.

Mörk FH í leiknum skoruðu Róbert Hugi Sævarsson þrjú og Bartosz Baginski tvö.

Drengirnir unnu alla leikina sína í sumar með markatöluna 112 mörk skoruð og 28 mörk fengin á sig.

 

13 leikir – 13 sigrar

Frábærir þjálfarar ásamt frábærum leikmönnum!

4.flokkur kvenna Íslandsmeistarar eftir sigur á Stjörnunni/Álftanes

Úrslitaleikur 4.fl kvk fór fram í gær þar sem lið FH og Stjörnunnar mættust. Leikið var undir flóðljósunum á Samsungvelli í Garðarbænum í mildu og góðu fótboltaveðri. Fjöldin allur af áhorfendum lögðu leið sína á völlinn enda hafa þessi tvö lið alltaf boðið upp á fótboltaveislu þegar þau mætast.

Andri Vigfússon, dómari leiksins, blés í flautuna og leikmenn kipptust við og ruku af stað. Á fyrstu 10 mínútum leiksins skiptust liðin á að sækja og á 11 mínútu komst Thelma Karen í fínt færi en skaut í hliðarnetið. Stjörnustúlkur voru fljótar að bregðast við og ruku af stað í sókn og komust yfir í leiknum með marki frá Ásthildi Lilju Atladóttur. FH-stúlkur voru beygðar þarna en brotnuðu ekki. Á 29. Mínútu leiksins komst Hildur Katrín Snorradóttir inn í sendingu frá Stjörnustúlku, brunaði af stað og setti hann snyrtilega í mark Stjörnunnar. 1-1 í hálfleik og foreldrar í stúkunni voru farnir að sjá ofsjónir og heyra raddir af stressi. Spennan var rafmögnuð.

Seinni hálfleikurinn fór af stað og komu FH-stúlkur ákveðnar til leiks. Á 39. Mínútu dró til tíðinda þar sem Hafrún Birna Helgadóttir fór upp vinstri vænginn og náði að koma boltanum fyrir mark Stjörnunnar. Þar var Eva Marín Sæþórsdóttir eins og refur í hænsnakofa. Lék snyrtilega á varnarmann og lagði hann í hornið. 2-1 fyrir FH stúlkum. Stjörnustúlkur reyndu hvað þær gátu að koma inn marki en ekkert gekk.

Ef Dagbjört Drífa í vörninni náði ekki að stoppa sóknirnar þá var hún með köttinn í markinu Steinunni Ernu sem virtist vera með UHU lím á hönskunum. Á 65 mínútu leiksins átti Anna Heiða Óskarsdóttir frábæra stungusendingu inn fyrir vörn Stjörnustúlkna. Einhverjir töldu sendinguna vera aðeins of fasta en þeir hafa þá ekki tekið eftir hraðanum á Thelmu Karen. Hún spýttist áfram eins og ökufantur á Reykjanesbrautinni og náði að komast á undan bæði markmanni og varnarmanni Stjörnunnar í boltann. Boltinn rúllaði, fólkið gólaði og dómarinn blés í flautuna. 3-1 og brekkan var orðin brött fyrir Stjörnuna. Brekkan varð svo ennþá brattari á 71 mínútu leiksins þegar Hafrún Birna fékk boltann úti á vinstri kantinum. Þar dansaði hún með boltann framhjá varnarmanni Stjörnunnar og setti boltann yfir markmann Stjörnunnar. 4-1 og dómari leiksins flautaði til leiksloka. Frábær fótboltaleikur og frábær sigur hjá FH-liðinu.

Það var svo Hrönn Haraldsdóttir fyrirliði liðsins sem lyfti bikarnum við mikinn fögnuð. Stelpurnar hafa átt frábært tímabil en þær eru einnig komnar í undanúrslitin í bikarkeppninni sem fer fram á morgun.

Geggjaður hópur!

Aðrar fréttir