ACTAVIS OG FH ENDURNÝJA SAMSTARFIÐ

Actavis og FH endurnýja farsælt samstarf átjánda árið í röð.

Actavis á Íslandi og Knattspyrnudeild FH skrifuðu nýverið undir nýjan tveggja ára samstarfssamning sem gildir til loka árs 2019. Þetta verða þá 18. og 19. árið í röð sem fyrirtækið er aðalstyrktaraðili Knattspyrnudeildar FH.

Actavis hefur stutt við uppbyggingu félagsins síðan 2001 þegar forveri Actavis, Delta, gerði fyrst samning við knattspyrnudeildina. Þá er Actavis stolt af því að styðja enn frekar við vöxt og uppgang kvennaknattspyrnu FH á samningstímanum.

Starf Knattspyrnudeildar FH er umfangsmikið og öflugt og hefur verið um áratugaskeið. Actavis er stolt af því að taka þátt í starfinu áfram með því að létta undir með rekstri knattspyrnudeildarinnar fyrir iðkendur í öllum flokkum. Framgangur FH, bæði á innlendum og erlendum vettvangi, er áberandi dæmi um hversu farsælt þetta samstarf hefur verið á undanförnum árum.

Actavis á Íslandi er mikið í mun um að styðja við nærumhverfi sitt eins og það best getur. Hlutverk Actavis er að efla heilsu og lífsgæði fólks og stuðningur við forvarnir og grasrótarstarf íþrótta- og æskulýðshreyfinga, eins og þessi samningur við Knattspyrnudeild FH endurspeglar, er mikilvægur þáttur í uppfylla það hlutverk.

Knattspyrnudeild FH er þakklát fyrir dyggan stuðning Actavis í gegnum árin. Það hefur verið mjög mikilvægt í uppbyggingu knattspyrnudeildarinnar að hafa trausta bakhjarla sem standa með félaginu til langs tíma. Samvinna Actavis og FH hefur verið gæfurík fyrir báða aðila og hjálpað til við að ná markmiðum beggja.

Ljóst er að samstarf Knattspyrnudeildar FH og Actavis hefur verið mjög farsælt og ríkir gagnkvæmt traust á milli þessara aðila. Vonast er til þess að nýr samningur tryggi áframhaldandi velgengni knattspyrnudeildar FH á komandi árum.

 

Fyrir hönd Knattspyrnudeildar FH

Jón Rúnar Halldórsson, formaður

Fyrir hönd Actavis á Íslandi

Sigfús Örn Guðmundsson, sviðsstjóri Samskiptasviðs

Aðrar fréttir