Æfingaferð mfl. kvenna til Portúgal, ferðasaga

Æfingaferð mfl. kvenna til Portúgal, ferðasaga

Lagt var af stað til Portúgal snemma morguns 31 júlí, en flugið út var kl 7 að morgni til. Allt gekk að óskum en skvísurnar voru mis-hressar miðað við tíma dags. Vélin lenti heilu á höldnu og farangurinn skilaði sér áfallalaust, þannig að við gátum haldið á hótelið á skikkanlegum tíma.

En þá byrjuðu ógöngurnar. Þegar komið var á hótelið okkar (að við héldum) fannst bókunin hreinlega ekki.Við létum það þó ekki á okkur fá og komum okkur vel fyrir hjá sundlauginni, mökuðum okkur upp úr sólarvörninni og settum i-podana í botn. Það var svo í vandræðalegri kantinum þegar að Mummi þjálfari tilkynnti okkur að þetta væri rangt hótel og ekki nóg með það, við vorum í kolvitlausum bæ.

Okkar rétta hótel var í Tavira sem er lítill bær í Portúgal. Íþróttahöllin þar var afar settleg, væn fyrir tröppuhlaup og góð lyftingatæki og bretti. Allt í dýrari kantinum. Það var stutt frá hótelinu að höllinni en samkvæmt útreikningum einhverra var það 1,2 km og þurfti að fara yfir ágætis brú og gegnum sígaunamarkað.

Við æfðum tvisvar sinnum á dag í ferðinni. Morgunæfingarnar skiptust á að vera lyftingar og tröppuhlaup eða sprettir og brennsla, svo maður tali nú ekki um kviðinn (eða belginn eins og okkar heittelskaði þjálfari kallar það) sem var heldur betur tekinn í gegn.

Hitinn var gífurlegur , höllin var ekkert loftræst svo að okkur nægði að ganga inn í hana til þess að fá svitakirtlana í stuð. Á kvöldæfingunum vorum við mikið í bolta, okkur til mikillar gleði. Hópurinn hélt sér meiðslalausum allan tíman nema á einni æfingunni tóku sig upp meiðsli, en hún Margrét nokkur varð fyrir því óláni að snúa á sér öklann og átti því erfitt með gang.

Okkur til mikillar sorgar, en ákveðinnar kátínu líka, var hlaupaskónm og bolum Hafdísar yngri og Helgu Völu stolið, en þetta var allt vel merkt með nafni og númeri. Við stúlkurnar óskum viðkomandi ánægjulegs hælsæris og svitalyktar. 🙂

Milli æfinganna létum við sólina marinera okkur, lögðum okkur yfir Simpsons og höfðum það gott. Við tókum líka nokkra blak leiki í sundlauginni öðrum hótelgestum til mikillar mæð því að við vorum gjörsamlega búnar að ofmeta kunnáttu okkar í blaki og reyndum við hættulegustu hreyfingar og slætti sem mest við máttm. Oftar en ekki endaði boltinn með látum annað hvort í fólki eða náði að skvetta duglega af sér og bleytti það vel.

Hótelið sem við vorum á var alveg brilljant og besta við það var maturinn, en við átum eins og stóðhestar á morgnanna og kvöldin og ég held að sumir hótel gestir hafi stílað upp á að mæta í mat á sama tíma og við til þess að sjá mat vera étinn af alvöru.

Hótelið bauð líka upp á skemmtilega vatnsleikfimi stjórnað af manni að nafni Michael sem kallaði á fólk í laugina með því að garga og flauta AQUA TEAM! okkur til mikillar ánægju. Skelltum okkur í það og það gaf ferðinni aukna gleði!

Mummi þjálfari bar sigur úr bítum í svokallaðri taning zone keppni. Maðurinn endaði eins og gangandi mars biti enda nýtti hann hvert tækifæri til þess að rífa sig úr bolnum, og gekk með belginn berann um allar götur Portúgal, sem vakti mis mikla lukku sjónarvotta. Þetta uppátæki Mumma gerði þó Portugölum glaðan dag, því að í hvert sem hann fór úr voru bílflauturnar ræstar í botn og gerði hann svo liðið vitlaust þegar að hann lét sjá sig í skærbleika bolnum sínum.

Elín Hrafns

Aðrar fréttir