Aftur er toppurinn innan seilingar | Mosfellingar lagðir að velli í Krikanum

Lið FH kom sér í kjörstöðu í Olísdeild karla með sterkum sigri á öflugu liði Aftureldingar, 30-26, í Kaplakrika í gærkvöldi.

Fyrir leik var vitað að verkefnið yrði erfitt. Lið Aftureldingar, sem var besta lið Olísdeildarinnar fyrir áramót, hefur að vísu ekki fundið sig almennilega á árinu 2017. Mosfellingar unnu hins vegar góðan sigur í umferðinni á undan, gegn Stjörnunni, og komu sér með því aftur á sporið. FH-ingar höfðu að sama skapi ekki spilað vel í einum og hálfum leik fyrir viðureign liðanna tveggja, eftir frábæra byrjun á árinu. Það var því erfitt að spá í það fyrirfram, hvort liðið myndi mæta betur stemmt til leiks.

Mosfellingum gekk illa að hemja Einar Rafn í gærkvöldi / Mynd: Jói Long

Mosfellingum gekk illa að hemja Einar Rafn í gærkvöldi / Mynd: Jói Long

Okkar menn byrjuðu leikinn afar vel og voru komnir með þriggja marka forskot eftir einungis 6 mínútna leik, staðan 4-1 fyrir FH. Strákarnir voru að ná stoppum í varnarleiknum frá fyrstu mínútu, og þá varð þolinmæði og agaður sóknarleikur til þess að FH-liðið fékk alltaf færi á hinum endanum. Mosfellingar komu sér hins vegar inn í leikinn hægt og bítandi, og þegar 5 mínútur voru til hálfleiks var staðan orðin jöfn, 10-10. Svo fór að þegar liðin gengu til búningsherbergja var staðan einmitt jöfn, 12-12, og því allt útlit að þessi toppslagur yrði í járnum allt til leiksloka.

Afturelding hóf síðari hálfleik á því að ná forystunni í fyrsta sinn í leiknum, 12-13.  FH-ingar jöfnuðu leikinn um hæl, og næstu mínúturnar var leikurinn jafn. Í stöðunni 16-16 tóku strákarnir okkar kipp, skoruðu 5 mörk í röð gegn engu marki gestanna og skyndilega var staðan orðin 21-16. Eftir það var aldrei spurning hvoru megin stigin tvö myndu enda. FH-liðið sigldi öruggum fjögurra marka sigri í höfn, 30-26 – sigri, sem getur reynst afar dýrmætur þegar talið er upp úr pokunum í lok deildarinnar. Þetta eru nefnilega ekki bara tvö stig sem unnust, heldur tryggði þessi sigur það að FH hefur betur gegn Aftureldingu á innbyrðis viðureignum, komi til þess að liðin ljúki keppni með jafnmörg stig í deildinni.

Jóhann Karl skoraði 2 mörk í leiknum, og var þar fyrir utan sterkur í varnarleiknum líkt og vanalega / Mynd: Jói Long

Jóhann Karl skoraði 2 mörk í leiknum, og var sterkur í varnarleiknum líkt og vanalega / Mynd: Jói Long

Eftir tvo leiki í röð þar sem strákarnir voru ekki upp á sitt besta, steig liðið upp sem heild í gærkvöldi. Varnarleikurinn var hreyfanlegur og sterkur, liðið sýndi aga í sóknarleiknum og þá fengust varðir boltar frá báðum markvörðum liðsins. FH-liðið sýndi nákvæmlega þann leik sem þarf að sýna, til að brjóta topplið líkt og Aftureldingu á bak aftur. Það lofar góðu, í ljósi þess hvers konar verkefni eru fyrir höndum.

Á sunnudag spilar FH-liðið við sterkt lið Gróttu í frestuðum leik, og sigur þar getur komið strákunum á toppinn á ný. Næsti leikur þar á eftir, á næstkomandi miðvikudag, er síðan topp-og nágrannaslagur gegn Ásvellingum. Frammistaða af þeirri sort sem sást í gær, er nákvæmlega það sem þarf í þessum tveimur leikjum. Strákarnir hafa örlög sín í eigin höndum, og haldi þeir vel á spilunum geta þeir staðið uppi sem deildarmeistarar innan tveggja vikna.

Óðinn Þór fagnar einu fallegasta marki tímabilsins / Mynd: Jói Long

Óðinn Þór fagnar einu fallegasta marki tímabilsins / Mynd: Jói Long

Mosfellingum gekk illa að hemja Einar Rafn Eiðsson í gærkvöldi, en hann átti afar góðan leik og skoraði 9 mörk. Óðinn Þór Ríkharðsson og Jóhann Birgir Ingvarsson reyndust Aftureldingu einnig erfiðir, en þeir skoruðu 7 mörk hvor. Í markinu vörðu Ágúst Elí Björgvinsson og Birkir Fannar Bragason 13 skot samanlagt.

Næsti leikur er, líkt og áður kom fram, heimaleikur gegn Gróttu næstkomandi sunnudag. Leikurinn hefst kl. 14:00. Vart þarf að fjölyrða um mikilvægi þessa leiks, og þess hve mikilvægur stuðningur ykkar er strákunum okkar í þeirri baráttu sem framundan er. Nánar verður fjallað um þann leik nú um helgina.

Mörk FH: Einar Rafn Eiðsson 9/3, Óðinn Þór Ríkharðsson 7, Jóhann Birgir Ingvarsson 7, Ágúst Birgisson 2, Jóhann Karl Reynisson 2, Þorgeir Björnsson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 1.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 7/1, Birkir Fannar Bragason 6/1.

Við erum FH!

Aðrar fréttir