Ágætis byrjun…

Ágætis byrjun…

Það virtist nokkur skjálfti í FH stúlkum í upphafi leiks og þær virtust jafnvel bera nokkra virðingu fyrir hinum erlendu leikmönnum Aftureldingar sem vissulega eru mjög góðir leikmenn. Enda tók það Aftureldingu aðeins 7 mínútur að komast yfir.

FH-stelpur létu þó ekki bugast enda leikurinn nýbyrjaður og þær fóru að gera sig gildandi. Ekki þurfti að bíða lengi eftir jöfnunarmarkinu. Lögfræðingurinn í félagsmálaráðuneytinu Guðrún Sveinsdóttir brunaði upp kantinn og sendi frábæran bolta fyrir á nöfnu sína Guðrúnu Björgu Eggertsdóttur sem hamraði boltann með enninu niður í bláhornið.

Það sem eftir lifði hálfleiks var leikurinn í fullkomnu jafnvægi, jafnvel  listrænu jafnvægi. Afturelding var meira með boltann en FH-stelpur vörðust og sóttu hratt þegar þær höfðu boltann og sérstaklega hafði Guðrún Sveinsdóttir fastar áætlunarferðir upp kantinn. Það var klassi yfir henn i í gær. Mætti í Dior-buxum fyrir leik og það hreinlega gaf tóninn.

En staðan í hálfleik var 1-1 og bæði lið leituðu skjóls í gamla búningaskúrnum. Það eru sennilega síðustu forvöð fyrir FH-inga að setjast niður í þessu heilaga musteri áður en það víkur fyrir nýjum tímum.

FH lék undan golunni í seinni hálfleik frá norðvestri til suðausturs – í átt að Setberginu. Rætt var um að skjóta á markið og það þurfti ekki að segja Valgerði Björnsdóttur tvisvar. Hún mundaði skotfótinn 35 metra frá marki og sekúndu síðar þandi boltinn netmöskvana efst í markhorninu.

FH-stelpur fundu lykt af bráðinni – og um 20 mínútum fyrir leikslok skoraði Sigrún Ella Einarsdóttir glæsilegt mark eftir skemmtilegt samspil við Guðrúnu Björgu.

Meira lá á FH-liðinu það sem eftir lifði leiks en varnarlína FH var þétt fyrir og Iona bjargaði oft glæsilega í markinu. FH-liðið átti líka sín færi eftir skyndisóknir en fleiri urðu mörkin ekki og FH-stelpur fögnuðu innilega góðum sigri á sterku liði Aftureldingar.

Það má segja að FH-liðið hafi komið nokkuð á óvart í fyrsta leik. Hópurinn er ungur að árum, uppistaðan eru stelpur sem eru enn í 2. og 3. flokki studdar dyggilega af nokkrum reyndari leikmönnum sem miðla af reynslu sinni til hinna yngri. Það er líka ánægjuleg staðreynd fyrir okkur FH-inga að allir leikmennirnir eru uppaldir FH-ingar og bera vitni öflugu starfi í yngri flokkunum.

Gaman var að sjá að þó nokkur fjöldi FH-inga var á leiknum og umgjörðin hjá kvennaráðinu var til fyrirmyndar. Það gefur stelpunum ómetanlega mikið að finna fyrir stuðning FH-inga og að þær finni að það sé áhugi á því sem þær eru að gera. Því hvet ég FH-inga til að mæta á völlinn í sumar. Stríðsgæfan á kannski ekki alltaf eftir að vera okkur hliðholl eins og hún var í þessum leik – en ég get lofað því að þessar stelpur leggja sig alltaf fram fyrir FH.

Næsti leikur er á móti Leikni í Kaplakrika kl. 14:00 á laugardag.

Aðrar fréttir