Andlát: Birgir Björnsson 22.febrúar 1935 – 2. september 2011

Andlát: Birgir Björnsson 22.febrúar 1935 – 2. september 2011

Fallinn er frá einn af mætustu sonum Fimleikafélags Hafnarfjarðar Birgir Björnsson. Birgir lést á heimili sínu í Hafnarfirði 2. september síðastliðinn, 76 ára að aldri. Hann var fæddur 22. febrúar 1935.

Birgir er þekktastur fyrir þátttöku sína í íþróttum en hann byrjaði ungur að æfa fimleika með FH, og snéri sér síðan alfarið að handknattleik. Hann var leikmaður 2. flokks karla í FH sem vann fyrsta Íslandsmeistaratitil félagsins í handknattleik karla 1954. Síðan hefur Birgir unnið marga titla með meistaraflokki, sem var flaggskip FH til margra ára. Hann lék fimm hundruð meistaraflokksleiki með FH á 20 ára ferli. Þá þjálfaði hann liðið í mörg ár. Birgir lék auk þess 29 landsleiki fyrir Ísland, var m.a. fyrirliði landsliðsins þegar Ísland tók í fyrsta sinn þátt í heimsmeistarakeppni í handbolta. Þá þjálfaði Birgir landsliðið um tíma og hann var þjálfari liðsins sem sigraði Dani í fyrsta sinn í flokksíþrótt. Birgir sat í landsliðsnefnd HSÍ.

Birgir varð forstöðumaður íþróttahúss FH í Kaplakrika 1989 og starfaði þar til 67 ára aldurs. Hann er heiðursfélagi FH.

Eftirlifandi eiginkona Birgis er Inga Magnúsdóttir, börn þeirra eru Magnús, Sólveig og Laufey. Barnabörnin eru sjö, barnabarnabörnin fjögur.

Útför Birgis fer fram frá Víðistaðakirkju, fimmtudaginn 8. september kl. 15:00.

Aðrar fréttir