Annað árið í röð fékk Afturelding rothögg | Strákarnir okkar í undanúrslit!

Staðan er 3-0 fyrir Aftureldingu, þeir fá víti. Svarthvítu hetjunum hefur ekki ennþá tekist að koma tuðrunni framhjá Lárus Helga í marki Mosfellinga, og ekki laust við að kominn væri smá pirringur í stuðningsmenn FH. Gestur Ólafur stígur á punktinn og dúndrar í fyrsta, Ágúst Elí gjörsamlega étur boltann. Allt í einu lifnar yfir FH. Vörnin fór að taka á mönnum almennilega og sóknarleikurinn fann taktinn. Það skaðaði ekki að harður, grófur varnarleikur Aftureldingar fór að uppskera tveggja mínútna brottvísarnir réttilega, stundum fyrir half kómísk brot. Það er eitt að taka á mönnum, annað að kýla sóknarmenn tvisvar í magann í sama hálfleik þegar nákvæmlega ekkert er í gangi.

Air Bjarni að skora annað af sínum tveimur mörkum / Mynd: Jói Long

FH tók eitt stykki fimm núll kafla og þá svöruðu Mosfellingar fyrir sig og jöfnuðu. En raunar var staðan 3-2, þegar níu mínútur voru liðnar, síðasta skiptið í leiknum sem heimamenn voru yfir. Það sem eftir lifði hálfleiksins voru FH-ingar um það bil einu til tveimur mörkum yfir, alveg þangað til á lokamínútunni. Þá kom örstuttur kafli þar sem FH vörnin náði boltanum og kastaði í hraðaupphlaup, í bæði skiptin birtist Óðinn Þór fremstur eins og sirka milljón sinnum í vetur og skoraði. Afturelding fór úr því að vera tveimur mörkum undir og í sókn og í að vera fjórum mörkum undir á 45 sekúndum. Rothöggið komið rétt fyrir hlé.

Seinni hálfleikur var eign eins manns, fógetans Ásbjörns Friðrikssonar. Hann fór hamförum eftir hálfleik, skoraði átta mörk og stýrði sóknarleiknum eins og höfðingi. Sannkölluð fyrirliðaframmistaða. Þetta var í raun aldrei spennandi í seinni hálfleik. FH skoraði að því virtist að vild og vonin fjaraði frá heimamönnum, á meðan vörn FH stóð þétt. Mestur varð munurinn 7 mörk.

Fyrirliðinn var hreinlega óstöðvandi í gær / Mynd: Jói Long

Heimamenn virtust vera að gera atlögu að spennuleik, tóku leikhlé þegar það munaði fimm mörkum á liðunum og tíu mínútur eftir. Þeir gerðust hins vegar sekir um ótrúlegt klúður, átta manns fóru inná eftir hlé og þeir fengu réttilega brottvísun. Einar Andri var vægast sagt brjálaður yfir dómnum, eða allavega hverjum átti að vísa út af og endaði á að fá tvær mínútur sjálfur. Allt loft fór úr UMFA eftir þetta og FH-ingar sigldu öruggum sigri í höfn, sem hefði auðveldlega geta verið stærri. Lokatölur 23-27, strákunum okkar í vil.

Freysi átti stórgóðan leik í gær á báðum endum vallarins / Mynd: Jói Long

Það er ekki erfitt að velja mann leiksins, Ási á þann titil skuldlaust. Aðrir spiluðu á pari, sem reyndist feykinóg gegn Mosfellingum. Það er samt klárt að leikur liðsins mun batna þegar líður á úrslitakeppnina og ekkert nema gott um það að segja. Næstir á dagskrá eru Selfysingar eða Stjörnumenn, þó ég viti á hvort liðanna ég myndi veðja. Það verður rosaleg rimma, við FH-ingar getum hlakkað til þeirra leikja og hitum betur upp fyrir þá þegar nær dregur.

Við erum FH!
– Ingimar Bjarni

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 11/2, Arnar Freyr Ársælsson 5, Óðinn Þór Ríkharðsson 4, Einar Rafn Eiðsson 3, Jón Bjarni Ólafsson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 12/1.

Aðrar fréttir