Annað sætið okkar eftir stórsigur á Eyjakonum

FH-stelpur tóku á móti ÍBV U í Kaplakrika í gær. Leikurinn fór vel af stað hjá okkar konum. FH-stelpur skoruðu fyrstu 3 mörkin í leiknum og voru allan leikinn skrefinu á undan stelpunum frá Vestmannaeyjum. Jókst forskotið jafnt og þétt út allan fyrri hálfleikinn og var staðan í hálfleik 17-8, FH í vil.

Seinni hálfleikur byrjaði hægar en sá fyrri, en voru FH-stelpur alltaf með öll tök á leiknum og eftir 45 mínútna leik leiddu þær með 10 mörkum 23-13. Jakob Lárusson, þjálfari liðsins, skipti liðinu mikið í seinni hálfleik og fengu allar FH-stelpurnar mínútur í þessum leik. Leikurinn endaði með 12 marka sigri FH-liðsins, 32-20 – enn einn stórsigur í húsi!

Enn og aftur fór Ragga á kostum! 10 mörk voru það að þessu sinni. / Mynd: Brynja T.

Það er augljóst að FH-liðið ætla sér að komast í Olísdeildina á næsta ári, og eru þær að yfirspila lið eftir lið sem þær áttu jafnvel í erfiðleikum með á síðasta tímabili. Einu stigin sem þær hafa tapað á þessu tímabili voru í fyrsta leik á móti Fram U, sem alla leiki hefur unnið í vetur, og í jafnteflinu í síðustu viku á Selfossi. Breytt hugarfar og meiri leikgleði skín af liðinu og margar stelpurnar sýna miklar framfarir í hverjum leik.

Næsti leikur stelpnanna okkar er þann 29. nóvember, en þær halda þá út á Seltjarnarnes og etja kappi við Gróttu. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!
– Kristín Þóra

Mörk FH: Ragnheiður Tómasdóttir 10, Sylvía Björt Blöndal 7, Emilía Ósk Steinarsdóttir 4, Aníta Theodórsdóttir 3, Aþena Arna Ríkharðsdóttir 2, Embla Jónsdóttir 2, Diljá Sigurðardóttir 1, Fanney Þóra Þórsdóttir 1, Britney Cots 1.

Aðrar fréttir