Árni Stefán Guðjónsson aðstoðar Halldór Jóhann

Árni Stefán Guðjónsson aðstoðar Halldór Jóhann

Stjórn handknattleiksdeildar FH hefur ráðið Árna Stefán Guðjónsson sem aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla.
Árni Stefán mun einnig þjálfa 2. flokk félagsins eins og undanfarin ár ásamt handboltagoðsögninni Guðjóni Árnasyni.

“Ég er fyrst og fremst gríðarlega ánægður með það traust sem Halldór Jóhann
og stjórn handknattleiksdeildarinnar eru að sýna mér. Þetta er frábært
tækifæri fyrir mig og eitthvað sem ég hef stefnt að alveg frá því ég
byrjaði minn þjálfaraferil.

Það hefur verið unnið mikið og gott starf í Kaplakrika undanfarin ár og mér
líst afar vel á það sem Halldór Jóhann, Ásgeir formaður og stjórnin ætla
sér í framhaldinu. Handboltinn í FH á sér langa og glæsta sögu sem allir
eru meðvitaðir um og við ætlum okkur að sjálfsögðu að halda áfram að bæta
þar við, með dyggum stuðningi frá okkar trausta og trygga fólki í pöllunum.

Ég er búinn að vera í Krikanum meira og minna síðan ég var smápolli og
fyrir uppalinn FH-ing er þetta því algjör draumastaða. Umgjörðin og öll
aðstaða í Krikanum er í hæsta gæðaflokki og þá eigum við aragrúa af
efnilegum leikmönnum sem eru byrjaðir að banka á dyrnar í meistaraflokknum.
Við ætlum okkur að nýta sumarið vel til þess að vera klárir í slaginn í
haust og ég hef enga trú á öðru en að FH-fjölskyldan eins og hún leggur sig
sé reiðubúin í þá baráttu með okkur, enda virkilega spennandi tímar
framundan í Kaplakrika.”

Aðrar fréttir