Aron Pálmarsson til FH

Fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, Aron Pálmarsson, skrifaði í gærkvöldi undir þriggja ára samning við handknattleiksdeild FH og gengur til liðs við félagið næsta sumar frá Álaborg í Danmörku. Aron kemur þá heim eftir fjórtán ár í atvinnumennsku en hann er eins og allir vita uppalinn í Kaplakrika.

Húsfyllir var í Sjónarhóli í Kaplakrika þegar Aron var kynntur til sögunnar á blaða- og stuðningsmannafundi gærkvöldi, og óhætt er að segja að Aron hafi fengið frábærar viðtökur en mikil fagnaðarlæti brutust út þegar hann gekk í salinn.

Aron Pálmarsson fór aðeins 18 ára gamall í atvinnumennsku en hann gekk til liðs við stórliðið Kiel í Þýskalandi árið 2009. Aron lék svo einnig með Vesprém í Ungverjalandi, Barcelona á Spáni og nú síðast Álaborg í Danmörku.

Aron er einn allra sigursælasti handboltamaður sögunnar og hefur undanfarin fjórtán ár unnið 31 stóran titil og má þar nefna: Meistaradeild Evrópu þrisvar sinnum, Heimsmeistari félagsliða þrisvar sinnum, Þýskalandsmeistari fimm sinnum, Ungverjalandsmeistari tvisvar sinnum og Spánarmeistari fjórum sinnum. Auk þess má nefna að Aron hefur oftast allra handknattleiksmanna – eða 10 sinnum – tekið þátt í Final 4 úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu. Tvívegis hefur Aron verið kjörinn mikilvægasti leikmaður (MVP) Final 4.

Ljóst er að koma Arons til FH mun ekki aðeins verða gríðarlegur liðsstyrkur fyrir FH-liðið, heldur einnig verða gríðarleg lyftistöng fyrir handboltann á Íslandi sem og FH samfélagið í heild.
FH fjölskyldan er gríðarlega spennt fyrir komu Arons næsta sumar og komandi tímabilum.
Til hamingju FH og og til hamingju Aron!
Hér má finna hlekk á blaðamannafund gærkvöldsins:
Hér er viðtal við Aron:
Hér er viðtal við Sigurstein Arndal, þjálfara FH:

 

Aron Pálmarsson í FH-treyjunni.

Ásgeir Jónsson, Aron Pálmarsson og Sigursteinn Arndal.

Logi Geirsson, Aron Pálmarsson, Kristján Arason og Geir Hallsteinsson.

Aðrar fréttir