Aron skrifaði undir hjá Kiel

Aron skrifaði undir hjá Kiel

Aron og faðir hans ásamt Alfreði Gíslasyni þjálfara Kiel og Uwe Schwenke frkv.stj. Kiel

Aron Pálmarsson okkar stórefnilegi leikstjórnandi mfl karla í handbolta skrifaði í dag undir fjögurra ára samning við þýska stórliðið Kiel í Þýskalandi. Samningur Arons mun taka gildi 1. júlí í sumar og gildir samningurinn til 30. júní 2013. Aron klárar því tímabilið með FHingum í vetur sem eru í harðri baráttu í jafnri N1 deild karla. Aron fór utan ásamt fjölskyldu sinni til viðræðna við Kiel í vikunni.

Félögin hafa komist að samkomulagi sín á milli um kaupverðið á Aroni og aðeins formsatriði að kaupin gangi í gegn. Í samningi milli félaganna er sérstakt samkomulag um samstarf þeirra. Þorgeir Arnar Jónsson formaður handknattleiksdeildar FH segir í samtali við visir.is að með því sé FH gluggi Kiel inn í íslenskan handbolta og félögin hafi aðgengi að hvort öðru. “Ég er viss um að þessi hluti
samningsins eigi eftir að skipta meira máli upp á framtíðina að gera en
peningurinn sem við fáum fyrir söluna á Aroni” sagði Þorgeir jafnframt.

Á heimasíðu Kiel tjáir Uwe Schwenke framkvæmdastjóri Kiel sig um kaupin á Aroni, segist afar ánægður með að vera búinn að fá hann til liðsins og segir hann vera eitt mesta efni í Evrópu í dag.

Aron er fyrsti Íslendingurinn til að spila með Kiel. Alfreð Gíslason þjálfar liðið. Kiel er stórveldi í þýskum handknattleik og hefur t.a.m. unnið þýska titilinn 11 sinnum á síðustu 15 árum. Kiel trónir á toppnum í deildinni og hefur aðeins tapað einu stigi í 15 leikjum í þýsku deildinni.

Aron ræddi við Moggann í dag og hafði þetta að segja: ,,Það er stórkostlegt að vera búinn að semja við Kiel. Þetta var draumaliðið og ég gat ekki hafnað þeim möguleika að koma til liðsins,”

FH.is óskar Aroni og hans fólki innilega til hamingju með þennan áfanga!

Aðrar fréttir