Áskorun frá félagi formanna liða í efstu deild karla í knattspyrnu.

Áskorun frá félagi formanna liða í efstu deild karla í knattspyrnu.

Áskorun frá félagi formanna liða
í efstu deild karla í knattspyrnu.

Formenn félaga  sem léku í efstu deild karla í knattspyrnu árið 2008 skora á ríkið, sveitarfélög og fyrirtæki í landinu til að standa þétt að baki íþróttahreyfingunni í landinu á komandi tíð.  Nú, sem aldrei fyrr, er brýnt að íþróttahreyfingin hafi afl til þess að sinna mikilvægu og ómissandi hlutverki sínu, sérstaklega gagnvart börnum og unglingum.

Við þeim knattspyrnufélögum, sem léku í efstu deild á árinu 2008, blasir að mæta þeirri tekjuskerðingu sem þegar er orðin svo og þeirri tekjuskerðingu sem fyrirsjáanleg er með lækkun rekstrarkostnaðar vegna lækkunar á framlögum styrktaraðila.  Í þeim efnum bíður stjórna félaganna erfitt verkefni þar sem treysta verður á skilning leikmanna og þjálfara félaganna á erfiðri stöðu.  Mikilvægt er að allir leggi sitt að mörkum til þess að verja hagsmuni knattspyrnuhreyfingarinnar og þá sérstaklega knattspyrnuiðkunar ungs fólks og barna, sem verði ekki látin gjalda erfiðra tíma.

Mikilvægt er að forysta Knattspyrnsambands Íslands fari gaumgæfilega yfir með hvaða hætti megi styðja sem best við bakið á knattspyrnufélögunum í landinu og hvaða leiða skuli leita til þess að rekstur félaganna verði fyrir sem minnstum áföllum.  M.a. er skorað á stjórn KSÍ að kanna hvort fresta megi tímabundið ákvæðum leyfiskerfis sambandsins þannig að sveitarfélög geti fremur lagt fjármuni í innra starf félaganna en fjárfestingar sem má fresta um sinn.

Formenn félaganna skora á stjórn KSÍ, stjórnir knattspyrnfélaga, þjálfara og leikmenn að standa með öllum ráðum vörð um íslenska knattspyrnu þannig að iðkendur innan hreyfingarinnar, fjölskyldur í landinu, sveitarfélög og ríkið geti áfram treyst á mikilvægt hlutverk hennar í samfélaginu.  

Reykjavík 14. október 2008

F.h. FH, Keflavíkur, Fram, Vals, KR, Fjölnis
Breiðabliks, Þróttar, Grindavíkur, Fylkis, HK og ÍA

Gísli Gíslason
Jón Rúnar Halldórsson
Hörður Antonsson

Aðrar fréttir