B-lið 3. flokks komið í úrslitaleikinn á Íslandsmótinu

B-lið 3. flokks komið í úrslitaleikinn á Íslandsmótinu

Dagurinn var tekinn snemma með morgunverði í Lækjarskóla sem María og Guðrún, mæður Benna og Orra töfruðu fram á svipstundu.

Eftir töflufund var gengið upp í Kaplakrika. Gussi Vass átti að vera kynnir og var búinn að búa til magnaðan lagalista en því miður virkaði hljóðkerfið ekki. Leiðinlegt því það er búið að taka ákvörðun á æðstu stöðum að í fyllingu tímans muni Gussi jafnvel taka við hljóðnemanum af goðsögninni Pétri Steph. Sögur herma að Gussi sé farinn að leita að svörtum jakkafötum.

Klukkan virkaði þó vel allt þar til þeir bræður Björn Berg Bryde og Árni Björn Höskuldsson klúðruðu málunum í hálfleik. Skiljanlegt með Bjössa en ég bjóst við meiru af Árna Birni sem stefnir sennilega á eðlisfræðibraut í MR. 

En að leiknum. Byrjunarlið FH var svohljóðandi:

                                       Guðjón

Hermann         Bjarki Ben      Dassi Sig        Helgi

                         Simmi      Einar Karl
Bjarni (f)                                                           Ingi

                        Orri                Kristján Gauti 

Eftir um hálftíma leik fór Helgi inn á miðjuna – Ingi í bakvörðinn og Simmi út á kant.

Tréverkið vermdu Gummi, Arnar Freyr, Smári, Benni, Jón Júlíus, Maggi og Nonni og komu varamennirnir allir við sögu.

Leikurinn var í hárfínu jafnvægi til að byrja með en FH þó ívíð sterkara. Orri Ómarsson náði forystunni fyrir FH með skoti utan að kanti eftir um 20 mínútuna leik. Orri skoraði annað mark stuttu síðar en það var dæmt af. Staðan í hálfleik var 1-0 fyrir FH.

FH-ingar voru greinilega staðráðnir í að gera út um leikinn, því strax í upphafi seinni hálfleiks bætti Orri öðru marki við. Eftir 60 mínútna leik náði Orri loks að fullkomna þrennu sína eftir fjölmörg góð tækifæri eftir að hann fylgdi eftir góðu skoti Guðmundar Gauks Vigfússonar sem fór í þverslánna. Gvendur þarna með skemmtilega innkomu en hann hefur verið frá í 2 vikur eftir að hafa fengið bylmingsskot í andlitið á æfingu. Sannarlega ánægjulegt að sjá hann aftur í FH-treyjunni.

Kristján Gauti innsiglaði sigurinn með frábæru marki 15 mínútum fyrir leikslok og ekki koma að sök þó Blikar minnkuðu muninn undir lokin.

Góður dagur frá upphafi til enda og ég er sérstaklega ánægður með að allir fengu tækifæri til að spila á besta fótboltavelli á Íslandi. Fyrri hálfleikur var svona lala en seinni hálfleikur var mun betri.

Aðrar fréttir