Baráttan um Fjörðinn, 3. orrusta

Baráttan um Fjörðinn, 3. orrusta

Okkar menn munu
mæta á Ásvelli fimmtudaginn 5. febrúar nk. kl 19:30. Um er að ræða þriðja í
orrustu og vonandi þriðja sigur FH á Haukum í vetur. Drengirnir okkar hafa sigrað
vora erkifjendur í tvígang; í deildinni 5. nóvember og í Bikarnum 7. desember
þar sem báðir leikir enduðu 29-28. Um var að ræða skemmtilegustu handboltaleiki
á Íslandi í mörg mörg ár.


Gengi liðanna

Haukar byrjuðu
mótið frekar illa. Mikið leikjaálag var á liðinu en það tók þátt í
Meistaradeild Evrópu sem hafði áhrif á leik þess heimafyrir. Þeir réttu þó
fljótlega úr kútnum, náðu að verða í efstu 4 sætum deildarinn fyrir áramót og
spiluð þeir til úrslita um deildarmeistaratitilinn milli jóla og áramóta þar
sem þeir biðu reyndar lægri hlut fyrir Frömmurum. Þeir hafa síðan sigrað báða
leiki sína eftir áramót á sannfærandi hátt og eru sem stendur í toppsætinu með
18 stig.

Gengi FH liðsins
hefur verið mjög gott. Leikur þess var stigvaxandi í byrjun móts en dalaði
örlítið fyrir jólapásuna. Liðið hefur síðan verið sannfærandi í báðum leikjum
sínum eftir áramót. FH hefur einnig átt láni að fagna í Eimskipsbikarnum og er
komið í undanúrslit. Liðið situr nú í 3. sæti með 16 stig, tveimur stigum á
eftir Haukum. Það gæti því farið svo að ef Valur, sem situr í 2. sæti með 17
stig, bíður lægri hlut fyrir HKog FH sigri Hauka verði Fimleikafélagið í
toppsætinu vegna betri innbyrðis viðureigna.

Síðustu viðureignir liðanna

Þessi lið mættust
þann 7. nóvember sl í N1 deildinni og 5. nóvember sl. Í Eimskipsbikarnum og þá
fóru þessi fleygu orð um vef FH :
Stærsti leikur ársins í íslenskum handbolta er að renna upp. Bræðrabyltan.
Slagurinn um Hafnarfjörð. FH gegn Haukum. Fræðimenn segja að orðtakið
“blóð, sviti og tár” hafi fyrst verið notað um leik þessara liða
snemma á síðustu öld. 

Það kom líka á daginn að um
stórkostlegan viðburð var að ræða. Afar klassísk FH-Haukastemmning kom upp í
þessum tveimur leikjum þar sem húsfyllir var í bæði skiptin. Þessi stemmning
smitaði út frá sér og lyfti plani handboltans hér heima á hærri stall. Í fyrri
leiknum höfðu Haukar undirtökin í fyrri hálfleik og leiddu með 4 mörkum í
hálfleik. FH beit frá sér í byrjun seinni hálfleiks og náðu fljótlega að jafna.
Leikurinn var í járnum eftir það. FH hafði meira hungur þegar á hólminn var
komið og afar sætur FH sigur 29-28 staðreynd þar sem mikið óðagot var síðustu
mínútuna. Seinni leikurinn sem var Bikarleikur þróaðist öðruvísi þar sem FH
hafði undirtökin allan leikinn og leiddu yfirleitt með 2-4 mörkum allt þar til
í lokin. Haukar gerðu leikinn töluvert spennandi en FH hélt fengnum hlut. Mikil
læti urðu í leikslok eins og menn muna eftir og sitt sýnist hverjum um þau
málalok eftir annars frábæran handboltaleik.

&

Aðrar fréttir