Baráttan um fjörðinn – Aðdragandinn

Baráttan um fjörðinn – Aðdragandinn


Kaplakriki, miðvikudagurinn 5. nóvember 2008 kl 19:30 

Eins og flestir væntanlega vita er STÓRLEIKUR í N1 deild karla miðvikudaginn 5. Nóvember kl. 19:30 í Kaplakrika þegar erkifjendurnir í Hafnarfirði, FH og Haukar mætast. FH.is skoðar nú, gengi liðanna í haust og köfum eilítið ofan í leikinn.

Gengi liðanna

Haukamenn hafa átt brösóttu gengi að fagna í Íslandsmótinu í haust. Þeir byrjuðu þó ágætlega, sigruðu Stjörnumenn og Akureyringa í fyrstu tveimur leikjum en töpuðu svo gegn HK og síðan illa gegn Val með 12 marka mun og síðan með 7 mörkum gegn Fram. Þeir náðu síðan að rétta úr kútnum með stórsigri á Víkingum með 14 mörkum. Haukar eru í 6. sæti deildarinnar með 6 stig.

Fhingum hefur gengið mjög vel í byrjun móts og þvert gegn hugmyndum manna er liðið nú efst á markatölu í deildinni eftir 6 umferðir. FH lagði Akureyri fyrir norðan, töpuðu naumlega fyrir HK á heimavelli, sigruðu síðan Víkinga úti, gerðu háspennujafntefli gegn Val og Fram, heima og að heima og sigruðu síðast Stjörnumenn úti.

Lið Hauka

Haukum var spáð efsta sæti deildarinnar með nokkrum yfirburðum í spá þjálfara, fyrirliða og formanna félaganna. Haukarnir hafa á að skipa gífurlega sterkan hóp með valinn mann í hverju rúmi , eru ríkjandi Íslandsmeistarar og ef horft er á hópinn og gengið er klárt mál að stórslys yrði ef liðið myndi ekki enda uppi sem Íslandsmeistari í vor.

Þrír gamalreyndir leikmenn yfirgáfu herbúðir Hauka síðan í fyrra, þeir Halldór Ingólfsson og Jón Karl Björnsson og Magnús Sigmundsson flutti sig yfir til okkar FHinga. Í staðinn fengu Haukamenn Tryggva Haraldsson og Hafstein Ingason en nýlega riftu Haukar samning þeirra vegna fjárhagslegra og handboltalegra ástæðna. Birkir Ívar Guðmundsson kom aftur í markið frá Þýskalandi ásamt því að Einar Örn Jónsson kom til baka frá Spáni. Fyrir hjá liðinu eru svo sterkir leikmenn eins og Andri Stefan, Arnar Pétursson, Gunnar Berg Viktorsson og Kári Kristjánsson svo einhverjir séu nefndir.

Þrátt fyrir brösótt gengi í deildinni taka Haukarnir nú þátt í meistaradeild Evrópu og hafa náð frábærum árangri. Þeir hafa gert sér lítið fyrir og sigrað lið Zaporozhy frá Úkraínu og Fotex Veszprém og voru lengi vel inni í leiknum gegn Flensborg ytra í Þýskalandi sem tapaðist með litlum mun.

Undirbúningur

Undirbúningur FHingar er með hefðbundnu sniði. Síðasti leikur gegn Stjörnunni var mjög sannfærandi og liðið sigraði verðskuldað eftir frábæran síðari hálfleik gegn fyrirfram sterkara liði að var talið. Leikmenn FH halda sér þó áfram á jörðinni og byggja áfram á góðum leik okkar og hugarfari og nýta okkur það til hins ítrasta við það að ná sem hagstæðustu úrslitum gegn Haukum. FH mun selja sig dýrt á miðvikudaginn.

Nýir leikmenn sem gengu til liðs við FH nýlega þeir Örn Ingi Bjarkason, miðjumaður/skytta sem kom frá Aftureldingu og Jónatan Jónsson, línumaður sem einmitt kom frá Haukum verða tilbúnir í slaginn.

Ástand

Ástand er með betra móti. Sjúkralistinn er eftirfarandi: Ólafur Gústafsson, Árni Stefán Guðjónsson og Heiðar Örn Arnarson en allir þessir leikmenn glíma við nokkuð langvarandi meiðsli. Aðrir eru heilir og tilbúnir í slaginn.

Aðrar fréttir